Alþjóðleg verkalýðshreyfing fordæmir ofbeldi Ísraels

By Fréttir

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana, segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í föstudagspistli. Þar fjallar hún að auki um nauðsyn þess að fyrirtæki setji sér stefnu um ásættanlegt launabil og veikingu skattrannsókna. Pistill Drífu, sem ber yfirskriftina „Það er víst nóg til„, fer hér á eftir.

 

Það er víst nóg til

Áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur þessa lands fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til” legg ég til þessi viðbrögð í staðinn: Að innleiða skyldu á fyrirtæki um að greina frá launabili innan fyrirtækja og setja sér stefnu um ásættanlegt launabil. Enn fremur að lækka ofurlaun og taka á bónusum og ofurarðgreiðslum.  Að sama skapi þarf fjármálaráðherra að svara því af hverju verið er að lækka gjöld á þá sem eru aflögufærir (fjármagnstekjuskatt, hlutabréfakaupendur, atvinnurekendur í gegnum tryggingagjald hvort sem þeir þurfa aðstoð eða ekki o.s.frv.) á meðan ríkissjóður er rekinn með tapi.

Veiking skattrannsókna er svo kapítuli út af fyrir sig þegar skattaundanskot eru metin af fjármálaráðuneytinu á 3-7% af landsframleiðslu. Það má líka vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðismarkaðarins þannig að fólk hafi í raun möguleika á öryggi í sínu daglega lífi óháð tekjum. Krafan um mannsæmandi laun er krafan um öryggi, sanngirni og lífsgæði. Til hvers eru ráðamenn ef ekki til að skilja þetta grundvallaratriði í lífi almennings? Ef ráðamenn og atvinnurekendur vilja fleiri góð ráð er af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há.

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana. Systursamtök ASÍ í Palestínu er PGFTU og góður félagi í þeim samtökum Dr. Ashraf Al-A’war var handtekinn af Ísraelsher þann 8. maí síðastliðinn, yfirheyrður um stéttafélagaþátttöku sína og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum eða verkalýðsmálum í einn mánuð. Þetta er dæmi um hið hversdagslega ofbeldi sem Palestínumenn mega sæta til viðbótar við hreinar loftárásir, landnám, aðskilnaðarstefnu, fangelsanir, morð og brottflutninga. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.

Konur rísa upp – aftur!

By Fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ, fjallar meðal annars um nýja #metoo-bylgju, sjálftöku sumra fyrirtækja og einkavæðingu þjónustu við aldraða, í föstudagspistli sínum, sem hér fer á eftir.

Ný #metoo-bylgja er hafin á samfélagsmiðlum. Enn á ný rísa konur upp og greina frá kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem þær hafa þurft að þola. Réttarkerfið nær aðeins utan um brotabrot, fæstar konur kæra ofbeldið enda hefur kerfið brugðist konum miklum mun oftar en það hefur reynst þeim vel. Í heimi vinnunnar verða konur fyrir áreitni og ofbeldi og nýjar sögur minna á hve langt við eigum í land. Öryggi á vinnustöðum snýst ekki bara um öryggisbúnað, heldur líka um andlegt og félagslegt öryggi og þar með varnir gegn ofbeldi og áreitni. Hér skal minnt á að hægt er að leita til stéttarfélaga eftir ráðgjöf vegna ofbeldis og áreitni á vinnustað.

Enn er nóg til

Í vikunni tók einhver pistlahöfundur að sér að útskýra landsföðurlega fyrir verkalýðshreyfingunni að það væri sannanlega ekki nóg til og því væri slagorð ASÍ „það er nóg til“ ekki sæmandi. Þessi rödd drukknaði hins vegar í öðrum fréttum af gríðarlegum hagnaði bankanna. Það eru hjáróma raddir sem telja að ekki sé hægt að gera betur í skiptingu gæða í samfélaginu og það er vaxandi óþol fyrir misskiptingu auðs. Við fáum reglulega áminningar um skekkjuna í samfélaginu og tvö nýleg dæmi sýna hana vel. Init, fyrirtæki sem þjónustar lífeyrissjóði og stéttarfélög, virðist mjólka félagslegar eignir launafólks með afar óeðlilegum hætti. Ég hef fullvissu fyrir því að óháð rannsókn verði gerð á framgangi og viðskiptum þessa fyrirtækis. Annað mál er einkavæðing hjúkrunarheimila á Akureyri, sem er væntanlega upptaktur að frekari einkavæðingu hjúkrunarheimila. Fyrirtæki sem er í gróðarekstri (ekki sameignafélag eða félag án arðsemissjónarmiða) ætlar að reka hjúkrunarheimili og byrjar á því að lækka laun hjá nýráðnum.

Það er ljóst að næstu kjarasamningar munu litast af þessari staðreynd. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta fyrirtæki muni sýna fram á hagnað og þá mun söngurinn heyrast um að einkaaðilar séu betur til þess fallnir að standa í rekstri en hið opinbera. En hvernig verður hagnaðinum náð? Leiða má líkum að því að þar verði eftirfarandi þættir ráðandi: lægri laun, minna menntað starfsfólk, skert þjónusta, reikningar sendir á ríkið þar sem hægt er o.s.frv. Við þurfum ekki að leita langt til að vita hvað er næst á dagskrá og ég veit ekki hversu margir þurfa að gera hryllileg mistök til að við sannmælumst um grundvallarstefnu: Gamalt fólk er ekki verslunarvara!

Baráttudagskrá Hlífar á 1. maí – Það er nóg til!

By Fréttir

Verkalýðsfélagið Hlíf sendir félagsmönnum og landsmönnum öllum baráttukveðjur á 1. maí. Vegna samkomutakmarkana höfum við brugðið á það ráð að gera myndband, með klippum úr sögunni og tónlistaratriðum sem voru sérstaklega tekin upp fyrir myndbandið, með listamönnunum Birni Thoroddsen, Hjörleifi Valssyni og Unni Birnu Björnsdóttur.

Glæsileg dagskrá – þrátt fyrir samkomubann

By Fréttir

Við látum ekki samkomubannið koma í veg fyrir baráttudagskrá á 1. maí. Við höfum útbúið myndband, þar sem blandað er saman nýjum tónlistaratriðum og brotum úr sögunni. Björn Thoroddsen, gítarleikari, Unnur Birna Björnsdóttir, söngkona og fiðluleikari og Hjörleifur Valsson fiðluleikari taka nokkur vel valin lög í tilefni dagsins. Dagskráin verður hér á vefnum og á Facebooksíðu Hlífar.

Nýtt á Íslandi: Tímaskráningarkerfið Curio App og launareiknir fyrir félagsmenn Hlífar

By Front-left

Félagsmenn Hlífar geta nú skráð sig fyrir ókeypis tímaskráningar „appi“ sem getur sent tímaskráningu skv. reiknireglum og kjarasamningum í launareiknivél SGS.

Með því að svara nokkrum spurningum á skráningarsíðu þá er hægt að hala niður Curio App tímaskráningaappinu og byrja að skrá vinnustundir í farsíma. Eftir að viðvera hefur verið skráð í appið er hægt að athuga hvort laun og aðrar greiðslur séu í samræmi við kjarasamninga SGS.

Útreikningur
Með einum smelli sendir Curio App skráðar vinnustundir inn í reiknivél SGS og getur félagsmaður skoðað launaútreikning sinn í farsíma sínum í lok mánaðar og borið saman útborguð laun og launaútreikning reiknivélar. Appið er knúið áfram af Curio Time sem er íslenskt tíma- og viðverukerfi. Appið er fáanlegt fyrir bæði IOS og Android snjallsíma.
Smella hér fyrir skráningarsíðu Hlífar

Nánar

Hörð gagnrýni ASÍ á „afkomubætandi aðgerðir“ í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar

By Fréttir

Áhersla stjórnvalda á að draga úr skuldum ríkissjóðs getur hægt á efnahagsbata hér á landi og viðhaldið háu atvinnuleysi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í öllum alþjóðlegum samanburði og meginmarkmið stjórnvalda hlýtur að vera að ýta undir fulla atvinnu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026. Í umsögninni er vikið að áætlunum um sjálfbærni opinberra fjármála og gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvernig stjórnvöld hyggist ná því markmiði. Miðað við núverandi horfur sé raunveruleg hætta á að efnahagsbati verði hægari en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Samkvæmt áætluninni aukist þá líkur á að „afkomubætandi aðgerðir“ sem svo eru nefndar leggist af auknum þunga á almenning og atvinnulíf.

Alþýðusambandið telur að huga beri að styrkingu tekjustofna á komandi árum þannig að eðlilegur viðsnúningur geti náðst í ríkisrekstrinum án þess að ráðist verði í niðurskurð á grunninnviðum samfélagsins. Í því samhengi gagnrýnir ASÍ þær skattabreytingar sem stjórnvöld hafi talið forgangsmál í djúpri efnahagskreppu. Þar megi nefna lækkun bankaskatts og breytingu á fjármagnstekjuskatti sem vinni gegn markmiðum um jöfnuð.

Í umfjöllun um aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við miklu atvinnuleysi telur ASÍ að finna megi „jákvæð skref“ en lögð er áhersla á að bregðast þurfi við atvinnuleysisvandanum sem skemmri tíma áskorun í formi beinna áhrifa af COVID-faraldrinum og lengri tíma áskorun sem birtist í auknu kerfislægu atvinnuleysi. Enn skorti sértækar aðgerðir til að mæta atvinnuleitendum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í COVID-kreppunni og  atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að vera fært um að tryggja viðunandi afkomu á meðan efnahagslífið nær sér á strik.