Skip to main content
Korter yfir sjö

Korter yfir sjö – verkfallið mikla 1955

By Fréttir

„Korter yfir sjö“, heimildarmynd um verkfallið 1955, var frumsýnd í gær. Myndin segir frá aðdragandanum, kjörum og aðstæðum almennings á þessum tíma og bregður upp glöggri mynd af gangi mála í verkfallinu sjálfu. Verkalýðsfélagið Hlíf, ásamt Dagsbrún og í Reykjavík og fleiri félögum stóðu fyrir verkfallinu, sem hófst 18. mars og lauk með því að undirritaðir voru samningar 28. apríl. Meðal þess sem náðist í gegn í þessum samningum var stofnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Hlíf náði samningum við Hafnarfjarðarbæ og nokkra atvinnurekendur í bænum nokkrum vikum fyrr, eða 26. mars. Það samkomulag veikti mjög samstöðu atvinnrekenda á svæðinu.

Nokkrar sýningar verða í Bíó Paradís. Félagsmenn eru hvattir til að láta ekki þessa merku mynd fram hjá sér fara.

Skattbyrði færð af þeim tekjuhæstu yfir á þá tekjulægri

By Fréttir

Fjármagnstekjur bera mun minni skattbyrði en launatekjur, andstætt markmiðum framsækinna skattkerfa, sem byggja á því að skattbyrði aukist með auknum tekjum. Inn í íslenska kerfið er innbyggður hvati fyrir þá sem stunda atvinnurekstur að telja laun fram sem fjármagnstekjur. Í nýrri skýrslu ASÍ kemur fram, að skattasniðganga í formi slíks tekjutilflutnings viðgangist á Íslandi. ASÍ telur að hægt væri að auka árlegar skatttekjur um 3-8 milljarðameð því að taka á þessu. Jafnframt kemur fram, að hægt væri að auka tekjur ríkissjóðs um meira en 20 milljarða á ári með skynsamlega útfærðum stóreignaskatti. Þessu til viðbótar er bent á að auðlindarenta fiskveiða sé á bilinu 30 – 70 milljarðar á ári, en á síðasta ári voru veiðigjöld 4,9 milljarðar.

Það er því ljóst, að ríkið hefur mikil tækifæri til tekjuöflunar, án þess að byrðum af efnahagslegum áhrifum Covid-19 verði velt á almennt launafólk. Um leið væri tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins eflt, en markvisst og meðvitað hefur verið dregið úr því á undanförnum árum og áratugum.

Hér má nálgast skýrsluna, en helstu niðurstöður eru hér að neðan:

  • Íslendingar tóku skref í átt að upptöku tvíþætts skattkerfis þegar samræmdri skattlagningu fjármagnstekna var komið á 1997.
  • Á Íslandi bera fjármagnstekjur mun lægri skattbyrði en launatekjur. Skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur aukast. Þetta er andstætt markmiði framsækinna skattkerfa, sem byggir á því að skattbyrði hækkar eftir því sem tekjur aukast.
  • Þegar skattur á fjármagnstekjur er lægri en skattur á laun skapast hvatar fyrir þá í eigin atvinnurekstri til að telja laun fram sem fjármagnstekjur, svokallaður tekjutilflutningur (e. income shifting). Komi skattkerfið ekki í veg fyrir tekjutilflutning er brotið í bága við hlutleysissjónarmið. Hlutleysi skattkerfis dregur úr því að ákvarðanir séu teknar út frá sjónarmiði skattahagræðis.
  • Tekjutilflutningur felst í því að launatekjur eru ranglega skráðar sem fjármagnstekjur. Skýrar vísbendingar eru um að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings viðgangist hér á landi. Það á aðallega við um atvinnurekendur með háar tekjur.
  • Ólíkt Norðurlöndunum hafa Íslendingar ekki brugðist við framangreindum veikleikum. ASÍ metur að reglur sem takmarka tekjutilflutning myndu auka árlegar skatttekjur um á bilinu 3-8 milljarða króna og styrkja tekjuöflun sveitarfélaga.
  • Auðlegðarskatturinn tryggði að skattbyrði fari stigvaxandi með hækkandi tekjum. Afnám skattsins dró úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Innleiðing á skynsamlega útfærðum stóreignaskatti á verulegar eignir myndi auka tekjur ríkissjóðs um meira en 20 milljarða á ári og jafnframt tryggja að skattbyrði fari stigvaxandi með hækkandi tekjum.
  • Móta þarf skýran ramma um auðlindagjöld. Gjaldheimta þarf að ná yfir nýtingu ólíkra auðlinda, t.d. fiskveiði, fiskeldi, framleiðslu raforku og nýtingu sem felst í þjónustu við ferðamenn. Færa þarf gjaldheimtu auðlindagjalda undir eitt ráðuneyti.
  • Veiðigjöld voru 4,9 milljarðar á síðasta ári en mat á auðlindarentu fiskveiða fyrir árin 2008-2019 er á bilinu 30-70 milljarðar á ári.
  • Ráðast þarf í markvissar aðgerðir gegn skattsvikum og undanskotum sem áætlað er að kosti samfélagið tugi milljarða ár hvert.

Hjálmur frá árinu 1912 á stafrænt form

By Sögubrot, Sögubrot - kynning

Fyrstu 10 árgangar Hjálms eru komnir á timarit.is. Á árunum 1912-1924 var blaðið handskrifað í innbundna bók og lesið upp í lok félagsfunda. Það er því einungis til í einu eintaki, sem hefur sem betur fer varðveist óskaddað. Nýlega var gerður samningur við Landsbókasafnið um að mynda Hjálm og birta á vefnum timarit.is. Með þessu vinnst tvennt: Annars vegar örugg varðveisla til frambúðar og hins vegar almennur, ókeypis aðgangur að efninu.

Fyrsti ritstjóri Hjálms var Magnús Hallsson. Á fyrstu síðu fyrsta tölublaðs, 25. nóvember 1912 skrifar Magnús nokkur inngangsorð, svohljóðandi:
„Hjer kemur þá í fyrsta sinnið, fyrir sjónir og áheyrn manna og kvenna, hið nýja málgang og unga afkvæmi „Hlífar“ undir nafninu „Hjálmur“. Mönnum mun hafa þótt nafn þetta allvel viðeigandi og rjett tilsvarandi heiti móðurinnar. Gjört mun vera ráð fyrir, að blaðið komi út vikulega til upplesturs, athugunar og umsagnar á fundum félags vors. – Stefnuskrá og tilgangur blaðsins verður einkum og sjerílagi alt það ser lýtur að framför og viðgangi fjelags vors, og eftilvill önnur mál, er kunna að snerta bæjarfélagið í heild sinni og er því æskilegt að sem flestir vildu senda blaðinu stuttar og gagnorðar greinar, er verða mættu að einhverju leiti til uppbyggingar, sem sem ýmsar ráðleggingar, nýjar uppgötvanir til framfara o.s.frv.

Þegar ofangreind mál etv verða fyrir hendi, tekur blaðið þakksamlega á móti fræðandi og skemtandi ritgjörðum, hvers efnis sem vera vill, einnig laglegum skrítlum og gamanvísum ef ekki virðast um of persónulegar eða blekkjandi, til upplestrar við fundarlok körlum þeim og konum til skemtunar er eirð hafa eftir að bíða. Hjálmur vill gjarna, svo sem hver annar hlýðinn viðvaningur taka með þökkum öllum rjettmætum og sanngjörnum leiðbeiningum, er snerta kunna frágang allan á útgáfu hans.“

Fyrsti skammtur er kominn á timarit.is, þ.e. öll handskrifaða útgáfan 1912-1924. Í framhaldinu verða öll tölublöð Hjálms til dagsins í dag sett á sama form.

Hér er hlekkur á fyrsta tölublað.

https://timarit.is/page/7490463#page/n0/mode/2up

Starfsfólki Landsbókasafnsins færum við þakkir fyrir einstaklega snör og fagmannleg vinnubrögð og gott viðmót.

Laun í sóttkví

By Fréttir

Nokkuð hefur verið um fyrirspurnir um réttindi starfsfólks í sóttkví. Sett voru lög um greiðslu launa í sóttkví, sem gilda amk út þetta ár. Vegna fjölda fyrirspurna til aðildarfélaga hefur ASÍ tekið saman minnisblað um túlkun þessara laga. Í því segir:

„Markmið laga um tímabundnar greiðslur launa til einstaklinga í sóttkví er að launafólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegri afkomu sinni þegar það fylgir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví.

Meginreglan er sú að atvinnurekendi greiðir starfsmanni sem sætir sóttkví laun en ríkið endurgreiðir atvinnurekandanum kostnaðinn fyrir utan launatengd gjöld. Við sérstakar kringumstæður, eins og verktöku eða verkefnastörf, geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur á vef Vinnumálastofnunar.

Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að einstaklingur hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að hann hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví. Ef fjarvinna er möguleg skerðast greiðslur sem því nemur. Réttindin til launa taka einnig til tilvika þar sem barn undir 13 ára aldri í forsjá launamanns sætir sóttkví, sem og barn undir 18 ára aldri með langvarandi stuðningsþarfir. Hámarksfjárhæð (21.100 kr.) er greidd fyrir hvern dag í sóttkví.

Úrræði þetta var lögfest 20. mars 2020 og gilti þá fyrir tímabilið 1. febrúar til 30. apríl 2020. Haustið 2020 var það hins vegar framlengt til 31. desember 2021.

Það er lögfræðilegt mat ASÍ að fari fólk í sóttkví í sumarleyfi teljist það ekki sem orlofsdagar.“

Vinnumálastofnun hefur tekið saman nánari upplýsingar um rétt til launa í sóttkví.

Kjarasamningur samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta

By Fréttir

Kjarasamningur, sem var undirritaður 22. júní sl. var samþykktur í öllum hlutaðeigandi félögum. Í sameiginlegri atkvæðagreiðslu Hlífar og VR greiddu atkvæði 189 af þeim 294 sem voru á kjörskrá, eða 64,3%. Samningurinn var samþykktur með 76,8% þeirra sem tóku afstöðu. Hjá félögum iðnaðarmanna var samningurinn samþykktur með 73,4% gildra atkvæða.

 

Nákvæmar niðurstöður
Já sögðu 142, eða 75,13.
Nei sögðu 43, eða 22,75%.
Tóku ekki afstöðu, 4, eða 2,12%

Af þeim sem tóku afstöðu
Já 76,8%
Nei 22,2%