Miðstjórn ASÍ varar við áformum um opnari landamæri

By Fréttir

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar við áformum um opnari landamæri meðan bólusetningar hafa ekki náð þeim markmiðum sem að er stefnt. Ávinningurinn af þeim áformum er óljós. Horfa ber til þess að smit eru enn afar útbreidd í fjölmörgum löndum heims og þar á meðal eru nýrri afbrigði af veirunni sem enn er takmörkuð þekking á. Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið á Íslandi að fólk sé frjálst ferða sinna innanlands í sumar og geti notið sumarleyfa og samvista án hertra aðgerða. Hætt er við að ferðaþjónustan og tengdar greinar geti borið meiri skaða af en ella ef opnunin verður til þess að grípa þurfi til harðari sóttvarnaraðgerða innalands.

ASÍ 105 ára í dag – pistill Drífu Snædal, forseta ASÍ

By Fréttir

Í dag eru 105 ár síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og vil ég nota tækifærið og óska launafólki til hamingju með samstöðuna og árangurinn í rúma öld. Lífsgæðin eru allt önnur en þau voru en verkefnin eru enn þau sömu; að tryggja fólki mannsæmandi laun, gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum, lífsgæði í formi hvíldar og frítíma og tryggingar ef eitthvað út af ber. Árangur samstöðu verkafólks sést best á því að í þeim löndum þar sem sterk verkalýðshreyfing hefur verið við lýði er minni ójöfnuður og betri almenn lífsgæði. Það á sannanlega við um Ísland í samfélagi þjóðanna. 

Markmiðið er að launafólk njóti þeirra gæða sem búin eru til og að samfélagið rúmi okkur öll. Þar er langt í land og þótt síðustu 105 ár hafa fleytt okkur áfram þá hafa bakslögin líka verið mörg og alvarleg. Í vikunni fengum við tvær afgerandi áminningar um það. Á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegu hámarki er atvinnuöryggi a.m.k. 140 starfsmanna hjúkrunarheimila í Fjarðarbyggð og Vestmannaeyjum stefnt í voða með yfirvofandi uppsögnum og hugsanlegum endurráðningum á lakari kjörum. Sveitarfélögin benda á ríkið og ríkið bendir beint til baka á sveitarfélögin. Tveir vasar á sömu buxum rífast á meðan launafólk veit ekki hvort það mun eiga í sig og á. 

Hin áminningin barst frá Orkuveitunni þar sem laun forstjórans voru hækkuð tvö ár afturvirkt, langt úr takti við aðra launaþróun, margfalt á við hækkanir láglaunafólks og reyndar líka langt umfram laun stjórnenda á sama tímabili. Einnig var týnd til stytting vinnuvikunnar bæði á almenna og opinbera markaðnum til að hækka laun forstjórans! Aðaleigandi Orkuveitunnar er Reykjavíkurborg. Fyrir ári síðan var ekki hægt að hækka laun fólksins sem heldur grunnstarfsemi borgarinnar gangandi án þess að efna til harkalegra kjaradeilna. 

Á afmæli ASÍ er gott að líta um öxl og fagna því sem hefur áunnist. En á sama tíma brýnum við okkur í baráttunni. Því við erum rétt að byrja. 

SGS mótmælir boðuðum uppsögnum á hjúkrunarheimilum

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega boðuðum uppsögnum á hjúkrunarheimilum í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabæ. Það er aumur fyrirsláttur hjá ríkinu að það sé nauðsynlegt vegna yfirfærslu rekstarins frá sveitarfélögum til ríkisins og hrein svik á því sem stéttarfélögum starfsmanna hefur verið gefið til kynna.

Það eru algerlega forkastanleg vinnubrögð hjá Heilbrigðisráðuneytinu að krefjast þess að allt að 150 starfsmönnum verði sagt upp,  sem eru að langmestu leyti konur í láglaunastörfum, að því að virðist með það að markmiði að ráða þær aftur til starfa undir öðrum kjarasamningi og á lægri kjörum.

Á landinu er atvinnuleysi í sögulegu hámarki og koma þessar fyrirhuguðu uppsagnir í framhaldi af öðrum uppsögnum á Heilbrigðisstofnunum á svæðinu sem er grímulaus aðför að láglauna kvennastéttum.

Þessa ruddalega framkoma eru ótrúlegar kveðjur til þessa fólksins sem hefur unnið sín mikilvægu störf undir miklu álagi undanfarin misseri.

SGS krefst þess að hætt verði uppsagnirnar og málið leyst þannig starfsfólkið haldi vinnu sinni og kjörum.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

By Fréttir

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni efna helstu samtök launafólks á vinnumarkaði til opins rafræns fundar undir yfirskriftinni „Konur í kafi – kynjajafnrétti á tímum heimsfaraldur“.

Dagskrá:
„Bakslag eða afhúpun: Heimilislíf og jafnrétti í fyrstu bylgju Covid frá sjónarhóli mæðra.“ Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræði við HA, og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við menntavísindasvið HÍ.
„Framlínukonur á tímum Covid.“ Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
„Spritta, tengjast, vinna.“ Donata Honkowicz-Bukowska, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með íslensku sem annað mál.
Umræður

Fundarstjóri er Drífa Snædal, forseti ASÍ.Viðburðurinn verður tekinn upp og aðgengilegur fljótlega eftir fundinn.

Zoomslóð á fundinn https://us02web.zoom.us/j/85277321283

Félagsmannasjóðurinn

By Fréttir

Enn eiga einhverjir starfsmenn sveitarfélaga og Hjallastefnunnar eftir að fá greitt úr félagsmannasjóði. Skýringin er í langflestum tilvikum sú, að við höfum ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar frá viðkomandi. Þeir sem telja sig eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum og hafa ekki fengið, eru beðnir að senda tölvupóst á gra@hlif.is, eða hringja í 510 0800.