Skrifstofan er lokuð – en samt opin

By Fréttir, Front-left

Vegna tilmæla sóttvarnaryfirvalda höfum við lokað fyrir heimsóknir á skrifstofuna. Við sinnum samt öllum erindum í síma og í gegnum tölvupóst.

Hægt er að fylla út allar umsóknir – um styrki sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs á tölvutækum eyðublöðum og senda í tölvupósti á hlif@hlif.is – ásamt afriti af kvittunum.

Lyklar að sumarhúsum eru afhentir á skrifstofunni milli kl. 14:00 og 16:00 á föstudögum – eða eftir samkomulagi.

Síminn er 510 0800

Bein netföng starfsfólks er að finna hér:

Kjarasamningur við Sorpu undirritaður

By Fréttir

Fulltrúar Verkalýðsfélagsins Hlífar og Eflingar – stéttarfélags skrifuðu í gær undir kjarasamning við Sorpu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Með samningnum hækka laun um á bilinu 100 til 113 þúsund krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun er náð fram með innleiðingu nýrrar launatöflu.

Í samningnum eru ákvæði um styttingu vinnuvikunnar bæði hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki, að hluta háð nánari útfærslu í samráði við starfsfólk líkt og í öðrum kjarasamningum við ríki og sveitarfélög.

Gerðar verða afturvirkar leiðréttingar á launum vegna hækkana 1. apríl 2019 og 1. apríl 2020 að frádreginni innágreiðslu sem greidd var meðan á kjaraviðræðum stóð.

Samningurinn verður kynntur og greidd um hann atkvæði á komandi dögum.

Sjá samninginn

Atkvæðagreiðslu er lokið

By Fréttir

Atkvæðagreiðsla vegna tillögu samninganefndar um aðgerðir til að knýja á um gerð kjarasamnings í álveri Rio Tinto í Straumsvík stendur frá kl. 12:00 föstudaginn 2. október til kl. 13:00 miðvikudaginn 7. október.

Kjósa hér

Ef þú færð skilaboð um að þú sért ekki á kjörskrá, en telur þig eiga rétt á að greiða atkvæði, sendu tölvupóst á gra@hlif.is.

Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hjá Rio Tinto á Íslandi hf

By Fréttir

Sameiginleg auglýsing frá stéttarfélögum starfsmanna Rio Tinto á Íslandi hf.; Verkalýðsfélaginu Hlíf, Félagi íslenskra rafvirkja, Félagi rafeindavirkja, VM – félagi vélstjóra og málmtæknimanna, FIT – félagi iðn- og tæknigreina og VR.

Þeir félagsmenn stéttarfélaga starfsmanna Rio Tinto á Íslandi hf. sem starfa hjá fyrirtækinu munu dagana 2.-7. október 2020 eiga kost á að greiða atkvæði um boðun vinnustöðvunar. Félagar hvers stéttarfélags, sem eru starfsmenn Rio Tinto á Íslandi hf., munu greiða atkvæði sérstaklega um þá vinnustöðvun sem starfsmenn þess félags taka þátt í, en aðgerðaáætlun er stillt upp sameiginlega af öllum hlutaðeigandi stéttarfélögum.

Atkvæðagreiðslan verður rafræn og hefst klukkan 12 á hádegi föstudaginn 2. október 2020 í gegnum heimasíður félaganna og lýkur klukkan 13 miðvikudaginn 7. október 2020.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna allra félaganna fer fram á skrifstofu Verkalýðsfélagsins Hlífar að Reykjavíkurvegi 64, 220 Hafnarfirði föstudaginn 2. október 2020 frá 13:00 til 16:00, mánudaginn  5. október 2020 frá 09:00 til 16:00, þriðjudaginn 6. október 2020 frá 09:00-16:00 og miðvikudaginn  7. október 2020 frá 09:00 til 12:00.

Félagsmenn Hlífar greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast laugardaginn 24. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Félagsmenn Félags íslenskra rafvirkja greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast föstudaginn 16. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Félagsmenn Félags rafeindavirkja greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast föstudaginn 16. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Félagsmenn VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast föstudaginn 16. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Félagsmenn FIT – félags iðn- og tæknigreina greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast föstudaginn 16. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Félagsmenn VR greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast mánudaginn 26. október 2020 og allsherjarverkfalli sem tekur við af þeim þriðjudaginn 1. desember 2020.

Yfirgnæfandi stuðningur við aðgerðir

By Fréttir

Í könnun meðal félagsmanna Hlífar sem starfa í álverinu í Straumsvík kom fram yfirgnæfandi stuðningur við aðgerðir til að knýja á um gerð kjarasamnings á grunni Lífskjarasamningsins.

Í síðustu viku voru haldnir tveir félagsfundir með starfsfólki og gerð könnun í kjölfarið. Könnunin hófst á föstudagskvöldið og lauk kl. 10:00 á sunnudagskvöld og stóð þannig í tvo sólarhringa. Þátttakan var mjög góð, ekki síst í ljósi stutts fyrirvara og þess skamma tíma sem könnunin stóð.

Meira en 90% þátttakenda vildu grípa til aðgerða. Samninganefnd félagsins leggur nú lokahönd á áætlun um aðgerðir á grundvelli niðurstaðnanna, í samráði við önnur félög starfsmanna.

Skortur á heildarsýn í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar

By Fréttir

Ríkisstjórnin tilkynnti í morgun um aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir uppsögn Samtaka atvinnurekenda á gildandi kjarasamningum, en ASÍ hafði áður tilkynnt að forsendur samninganna séu ekki brostnar. ASÍ hefur þegar brugðist við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Viðbrögð ASÍ vegna yfirlýsingar ríkisstjórnar í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamnings 

Ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu í dag í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins. Yfirlýsingin er sett fram í kjölfar þess að Samtök atvinnulífsins hafa kynt undir ófriði á vinnumarkaði með því að boða til atkvæðagreiðslu um að slíta Lífskjarasamningnum á afar hæpnum forsendum. 

ASÍ bendir á að í yfirlýsinguna skortir heildarsýn um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til vegna Covid-kreppunnar. Alþjóðlegum stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OECD ber saman um að lykilverkefnið sé að tryggja afkomuöryggi fólks. Með því verði komið í veg fyrir að kreppan verði djúp og langvinn. ASÍ fer því fram á að samhliða þessari yfirlýsingu gefi stjórnvöld út vilyrði um að hækka grunnbætur atvinnuleysistrygginga, sem nú eru 289.510 krónur, og að þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks verði hækkað. 

Þá setur ASÍ fram skýlausa kröfu um að í frumvarpi til starfskjaralaga verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar. Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur komist upp með að stela launum fólks og með ólíkindum að stjórnvöld hiki við að leiða í lög tæki sem raunverulega bíta gegn svo siðlausu athæfi. 

Með yfirlýsingunni eru lagðar til aðgerðir í átta liðum. Sumar þeirra bera þess merki að vera lítt úthugsaðar og fer ASÍ fram á að koma að útfærslu þeirra. Viðbrögð ASÍ við einstaka aðgerðum fara hér á eftir:

1. „Allir vinna“ framlengt
ASÍ fagnar þeirri ákvörðun að framlengja átakið „Allir vinna“. Það hefur hvetjandi áhrif á bæði atvinnustigið og hagkerfið. 

2. Tímabundin lækkun tryggingagjalds
ASÍ mótmælir fyrirhugaðri lækkun tryggingagjalds. Tryggingagjald er nánast eini skatturinn sem fyrirtæki greiða og hefur þegar lækkað um samtals 0,5% árin 2019 og 2020. Tryggingagjaldið stendur undir mikilvægum innviðum á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingar, sem hvoru tveggja gegnir lykilhlutverki í að tryggja afkomuöryggi fólks. Lækkun tryggingagjalds þvert á atvinnugreinar mætir ekki kröfu ASÍ um sértækar aðgerðir til að mæta sértækum vanda. Verði þessi leið farin þurfa stjórnvöld að brúa bilið. ASÍ áréttar að það kemur alls ekki til álita að fresta lengingu fæðingarorlofs eða skerða greiðslur í fæðingarorlofi. 

3. Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins
ASÍ hefur lagt áherslu á sértækar aðgerðir til að mæta þeim sértæka efnahagslega vanda sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér. Því er jákvætt að hér sé miðað að því að beina stuðningi að rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins. Tillögurnar eru hins vegar óútfærðar og leggur ASÍ þunga áherslu á að koma að útfærslunni. ASÍ gerir ráð fyrir að þessar aðgerðir eigi öðru fremur að koma til móts við litla rekstraraðila og einyrkja sem hafa orðið einstaklega illa úti, ekki eingöngu innan ferðaþjónustu heldur líka í tengdum greinum, í listum, menningu, tæknigreinum o.fl. 

4. Skattaívilnanir til fjárfestinga
ASÍ fellst á skattaívilnanir til grænna umbreytinga og til að uppfylla loftslagsmarkmið en leggur áherslu á að skattaívilnanir verði bundnar við það en ekki við óljós markmið um samkeppnishæfni atvinnulífsins. ASÍ lýsir yfir furðu með þá tillögu að stjórnvöld hafi forgöngu um að hvetja til hlutabréfakaupa almennings. Ef hér er átt við að veita skattafslætti í tengslum við hlutabréfakaup þá mótmælir ASÍ því harðlega enda munu þeir afslættir renna til hinna efnameiri í samfélaginu. 

5. Aukin áhersla á nýsköpun og matvælaframleiðslu
ASÍ fagnar aukinni áherslu á nýsköpun og matvælaframleiðslu en leggur áherslu á að eiga aðkomu að útfærslu á tillögum um „hagkvæmni og skilvirkni“ í matvælaframleiðslu. ASÍ minnir á tillögu sína um nýsköpunarsjóð sveitarfélaga sem yrði úthlutað úr hlutfallslega mest til þeirra sveitarfélaga sem hafa orðið verst úti í kreppunni, sjá nánar í útgáfu ASÍ Rétta leiðin: frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll. 

6. Úrbætur í skipulags-og byggingamálum
ASÍ telur mikilvægt að ráðast í margar af þeim úrbótum sem greindar eru í niðurstöðum átakshóps í húsnæðimálum. ASÍ geldur hins vegar varhug við tillögum sem lúta að því að draga úr samkeppnishindrunum á mörkuðum. Þótt slíkt kunni að hafa yfir sér jákvætt yfirbragð lúta slíkar tillögur oft að því að draga úr lögum og reglum sem eru sett til verndar almenningi og umhverfinu. 

7. Umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði
ASÍ er tilbúið til samvinnu um grænbækur um lífeyrismál annars vegar og um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála hins vegar. 

8. Frumvörp sem styðja Lífskjarasamninginn lögð fram
Hér er um að ræða frumvörp sem áður hafa verið gefin fyrirheit um í tengslum við Lífskjarasamninginn. ASÍ setur fram þá skýlausu kröfu að í frumvarpi til starfskjaralaga verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar. Sú aðgerð kostar ríkissjóð ekki krónu en mun draga úr kostnaði stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera við þung málaferli vegna launaþjófnaðar. Verði ekki kveðið á um févíti stendur upp á stjórnvöld og SA að svara því hvers vegna þau slá sameiginlega skjaldborg um launaþjófa. ASÍ áréttar fyrri tillögur sínar um afnám verðtryggingar og hvetur stjórnvöld til að hverfa frá þeim undanþágum sem hafa verið til umræðu í tengslum við frumvarp um vexti og verðtryggingu. Þá áréttar ASÍ mikilvægi þess að frumvarp um kennitöluflakk fari í gegnum Alþingi hratt og örugglega og frumvarp til húsaleigulaga sömuleiðis.