Skip to main content

Hugsið ykkur einn mann, sem ætti níu hundruð og níutíu þúsund krónur, og hugsið ykkur níu menn, sem ættu aðeins eitt þúsund krónur hver, þá lifðu níu menn við sult og seyru, eymd og öryggisleysi, en einn maður við óhóf og sællífi, hversu óumdeilanlega væri ekki heilbrigðara og betra ef allir þessir menn ættu sín hundrað þúsundin hver. — Að því stefnir sósíalisminn.

Birgir DýrfjörðÞetta er meðal þess sem Birgir Dýrfjörð sagði í 1. maíávarpi árið 1958.

Verkalýðsæskan og 1. maí

 

HAFNFIRZKUR verkalýður! Í dag er okkar baráttudagur, og kröfur okkar iðnnemanna á þessum degi eru: Hækkað kaup, árlegt kunnáttupróf og verknámskennsla í dagskólum.

En þó vil ég sem ungur maður sérstaklega beina máli mínu í dag til verkalýðsæskunnar allrar um baráttu okkar og viðhorf til fyrsta maí.

Viðhorf meginþorra æskufólksins, var vægast sagt allískyggilegt.

Nú orðið er farið að hlakka til viku og hálfum mánuði fyrir daginn og búa sig undir komu hans. Mikill hluti gerir það með því að skreppa með tösku á Snorrabrautina eða Skúlagötu.

Síðan er rætt í tíma og ótíma, að nú skuli menn á ferlegt fyllerí, til þess sé, 1. Maí, hann sé ætlaður sem frí og skemmtidagur fyrir fólk, sem þræli og púli árið um kring.

En þetta er sá hugsunarháttur, sem við verðum að varast og verðum að útrýma.

Þessi hugsunarháttur býður þeirri hættu heim, að 1. Maí glatist úr höndum okkar sem baráttudagur fyrir betra lífi, eða fái á sig svipað snið eins og til dæmis verzlunarmannahelgin.

Og það eru ekki sízt, er fastast hafa staðið á móti kröfum okkar, sem reyna að læða þessum hugsunarhætti inn hjá fólki, og þá sérstaklega ungu fólki, og það er auðskilið, undan hvaða rótum þessi hvatning til verkalýðsins er runnin. Því ef þeim tekst að fá fólkið til að skoða þennan dag sem skemmtidag, þá þurfa þeir síður að óttast samhug og einingu um þær kröfur, er fram kunna að koma.

En því miður er það ekki aðeins, að fólkið sé hvatt til að lifa hátt og skemmta sér þennan eina dag, þessi áróður klingir í eyrum sýnkt og heilagt árið um kring, hryggilegasta  dæmið um hve æskan er sýkt þessum áróðri er það að eitt stærsta pólitíska æskulýðsfélag landsins starfar fyrst og fremst sem skemmtifélag, og þess vegna er það líka stærst.

Nú má enginn ætla, að ég sé á móti því, að fólk skemmti sér. Ég tel slíkt þvert á móti nauðsynlegt, sé það gert í hófi, en ég er gjörsamlega á móti því, að fólk telji skemmtanir æðsta takmark lífsins eins og því miður, allt of margir virðast gera.

Ég hef átt umræður um þetta við allmarga jafnaldra mína, pilta og stúlkur, og hjá flestöllum hefur svarið verið mjög sviptað, eða eitthvað á þessa leið: „Hvað heldurðu, að mig varði um pólitík, ég er alveg ópólitízkur, pólitík er bara fyrir gamla karla, hvað á ungt fólk líka að vera að skipta sér af þessari vitleysu.“

En því miður, dæmið er ekki svona einfalt, pólitík er fyrst og fremst hagsmunabarátta, þar sem aðalbaráttan, er háð milli tveggja meginstefna: samstöðustefnunnar, þar sem sá sterki styður þann veika, þar sem hagsmunir fjöldans ganga fyrir hagsmunum einstaklingsins, — það er sósíalisminn. —

Hugsið ykkur einn mann, sem ætti níu hundruð og níutíu þúsund krónur, og hugsið ykkur níu menn, sem ættu aðeins eitt þúsund krónur hver, þá lifðu níu menn við sult og seyru, eymd og öryggisleysi, en einn maður við óhóf og sællífi, hversu óumdeilanlega væri ekki heilbrigðara og betra ef allir þessir menn ættu sín hundrað þúsundin hver. — Að því stefnir sósíalisminn.

Hin stefnan, einkahyggjustefnan eða einstaklingshyggjustefnan, byggist á hinni svokölluðu frjálsu og óháðu samkeppni, þar sem sá sterki hefur fulla heimild til að beygja þann veika undir sig, gera hann að þjóni sínum, og njóta arðsins af honum, en þessi stefna, getur aldrei leitt til farsældar fyrir fjöldann, og virkar því alltaf neikvætt fyrir hina fjölmennu verkalýðsstétt. Því hlýtur hamingja okkar verkalýðsins og leiðin að kjarabótum að liggja í því að hnekkja áhrifum þessarar stefnu, og þá kem ég að því, er ég hvarf frá áðan, hversu feiki-hættulegt það er, þegar stór hluti, já því miður allt of stór hluti, af ungum verkamönnum og verkakonum, lætur forheimska sig og neitar, að hugsa þessi mál, en vill bara skemmta sér og lifa hátt.

Og hvers getum við vænzt af slíku fólki, í baráttu okkar fyrir betri lífsafkomu: Svarið verður: Einskis. En þetta fólk verður , að snúa við, og hugsa um þessa hluti, og það verður að vera pólitískt, þó ekki sé vegna sjálfs síns, þá vegna þeirra óbornu. Það! Er skylda.

Því vil ég, að stærstu kröfuna í dag, geri verkalýðsæskan til sjálfrar sín, og krafan er; að upplýsa sig, mennta sig og þroska til að geta orðið sem hæfust í baráttunni fyrir betra lífi, — bættum kjörum, og verndun þeirra kjara, sem brautryðjendunum hefur tekizt með baráttu og fórnum að skapa okkur. Því það er ekki síður erfitt að gæta fengsins fjár en afla hans.

Og að lokum: Ungi hafnfirzki verkamaður, unga hafnfirzka verkakona, íslenzk verkalýðsæska. Verum verð þess að vera tengiliður milli hins liðna tíma og þess ókomna, stöndum það trúan vörð um lífsafkomu okkar, að við getum skilað henni betri í hendur barna okkar og þeirra, er við taka. Höfum það ekki á samvizkunni, að börn okkar þurfi að búa við verri lífskjör, en við búum við í dag.

Kjörorðið er: Friður, frelsi og bræðralag.
Birgir Dýrfjörð.

RÆÐA þessi var flutt á útifundi verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði 1. maí árið 1958 og fjallar um skyldu verkalýðsæskunnar við sjálfa sig í nútíð og framtíð. Hún birtist hér með góðfúslega leyfi höfundar, sem var á þessum tíma formaður Iðnnemafélags Hafnarfjarðar.