Skip to main content

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar mótmælir harðlega þeim hækkunum á álögur á íbúa Hafnarfjarðar, sem áformaðar eru og lesa má út úr frumvarpi að fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2020. Hækkanir á heimaþjónustu, akstri aldraðra og húsaleigu í félagslegu húsnæði um tugi prósenta hittir þá fyrir sem síst skyldi. Þessu til viðbótar er áformað að hækka skatta og gjöld á eigendur íbúðarhúsnæðis, langt umfram tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaganna um að hækka ekki álögur umfram 2,5%. Tilmælin komu fram í yfirlýsingu sem sambandið gaf í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í vor.

Stjórn Vlf. Hlífar bendir á, að þessar hækkanir leggjast ekki á þá sem hafa breiðustu bökin og eru helst aflögufærir, heldur einkum á þá sem lakast standa: fatlað fólk, aldraða og ungar barnafjölskyldur í fjölbýli. Meirihluti bæjarstjórnar er hvattur til þess að hverfa frá þessum áformum áður en fjárhagsáætlunin verður afgreidd.