Skip to main content

Formenn verkalýðsfélaga starfsfólks sem vinnur í álverinu í Straumsvík hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu um að tilboði um eingreiðslu og framlengingu friðarskyldu sé hafnað og að undirbúningur verkfallsaðgerða sé hafinn. Tilkynningin fer hér á eftir:

Tilboði um eingreiðslu og framlengingu friðarskyldu hafnað og undirbúningur verkfallsaðgerða hafinn

Stéttarfélög starfsmanna Rio Tinto á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, vilja sem fyrr ljúka undirritun nýs kjarasamnings sem aðilar deilunnar hafa komið sér saman um, en ekki hefur fengist samþykki fyrir frá hluthafa Rio Tinto á Íslandi hf. Stéttarfélögin hafa því ákveðið að hafna tilboði Rio Tinto á Íslandi hf. og Samtaka atvinnulífsins um eingreiðslu og framlengingu friðarskyldu, án nýs kjarasamnings, og hefja þess í stað undirbúning atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna um boðun verkfallsaðgerða.

Varð þetta niðurstaða formanna og samninganefnda félaganna að höfðu samráði við starfsmenn álversins. Niðurstaða stéttarfélaganna var kynnt viðsemjendum þeirra á fundi hjá Ríkissáttasemjara í morgun.

Félögin hafa þegar hafið undirbúning atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sem fyrirhugað er að fari fram 10. til 13. mars 2020. Nánari tilhögun atkvæðagreiðslunnar verður kynnt á næstu dögum. Verði niðurstaða atkvæðagreiðslu félagsmanna að boðað skuli til verkfallsaðgerða verða verkföll boðuð svo fljótt sem verða má eftir að sú niðurstaða liggur fyrir, en samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þarf að boða verkföll með minnst 7 daga fyrirvara.

Það er sem fyrr von stéttarfélaganna að aðilar undirriti hinn nýja kjarasamning áður en til verkfallsaðgerða kemur.