Skip to main content

Menntakerfið okkar

Undanfarið hefur hópur nemenda í 10. bekk Víðistaðaskóla kynnt áherslur sínar og kröfur til yfirvalda um gagngera uppstokkun á námsskrá grunnskóla, með það fyrir augum að leggja meiri áherslu á að undirbúa nemendur undir þátttöku í daglegu lífi. Í því sambandi hafa þau sérstaklega nefnt vinnumarkaðinn. Við hjá Hlíf settum okkur í samband við þau til að fræðast nánar um áherslur þeirra og sjónarmið. Til okkar mættu þrír af fjórum stjórnarmönnum í þessum sjálfssprottna hópi: Helga María Kristinsdóttir, Alexander Ívar Logason og Elísabet Véný Þórisdóttir Schioth. Fjórði stjórnarmaðurinn, Hildur Jóna Valgeirsdóttir hafði ekki tök á að mæta að þessu sinni.

Þau spurðu okkur fjölmargra spurninga, svo sem varðandi réttindi á vinnumarkaði, hvernig best sé að bera sig að við að sækja um starf, gera ferilskrá og um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  Fjölmargt bar á góma, kjarasamningar, kauptaxtar, launaseðlar, vinnusiðferði og skattar. Margar spurninganna snerust um verkefni stéttarfélags, hvað færðu fyrir félagsgjaldið og hvað getur stéttarfélagið gert fyrir þig. Auk þess var spurt um orlof, örorku, fæðingarorlof og fleira.

Það kom fram í máli fulltrúa hópsins, að þau telja mikilvægt að flétta fræðslu um þessi mál inn í þær námsgreinar sem nú þegar eru kenndar.

Við vonum að þau hafi haft gagn af heimsókninni. Fulltrúar Hlífar, Kolbeinn formaður, Eyþór varaformaður og Guðmundur Rúnar framkvæmdastjóri höfðu sannarlega mikið gagn af henni og við ákváðum að vera áfram í sambandi og að Verkalýðsfélagið Hlíf væri reiðubúið að leggja sitt af mörkum, í samvinnu við þau og skólayfirvöld.