Skip to main content

Í gær (19. júní) var fundað í deilu SGS og sveitarfélaganna hjá Ríkissáttasemjara. Á þessum öðrum fundi frá því að deilunni var vísað til sáttasemjara voru kröfur kynntar og rökstuddar. Ekkert nýtt kom fram á fundinum og afstaða sveitarfélaganna til leiðréttingar á lífeyrisréttindum stendur óhögguð. Sáttasemjari ákvað að næsti fundur verði haldinn 21. ágúst nk.

Að sögn  Kolbeins Gunnarssonar, formanns Hlífar var lítill sáttatónn í samninganefnd sveitarfélaganna og að þeir félagsmenn sem vinna hjá sveitarfélögunum megi jafnvel búast við að gripið verði til aðgerða í haust, til að knýja á um kröfurnar.

Viðræður við álverið

Þá var haldinn fyrsti fundur Hlífar og Rio Tinto vegna samninga Hlífarfélaga í álverinu í Straumsvík, en samningar losnuðu um síðustu mánaðmót. Að sögn Kolbeins er of snemmt að segja til um í hvaða farveg þær viðræður stefni. “Þetta var fyrsti fundurinn og samningsaðilar kynntu kröfur sínar. Okkar fólk er búið að vinna sína heimavinnu vel og við höfum líka átt góða upplýsingafundi með öðrum félögum sem eru með lausa samninga í álverinu. Ég á svosem ekki von á stórum tíðindum úr þessum viðræðum nú yfir hásumarið. Margir eru í sumarleyfum og erfitt að koma saman fullmönnuðum fundum. Ég geri ráð fyrir því að það dragi til tíðinda með haustinu, þegar fólk kemur endurnært úr fríum.”