Skip to main content

Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.

Kvenréttindadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, 19. júní. Þá er því meðal annars fagnað, að þennan dag, árið 1915, fengu konur á Íslandi kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Á þessum fyrstu árum 20. aldarinnar voru stigin ýmis mikilvæg skref í jafnréttismálum. Konur fengu þá ýmis grundvallarréttindi, sem karlar einir höfðu haft áður. Í sumum tilvikum er þó réttara að segja að þær hafi tekið sér þessi réttindi, frekar en að þær hafi fengið þau. Þannig tóku konur sér verkfallsrétt, til að leggja áherslu á kröfur gagnvart atvinnurekendum.

Fyrsta opinbera verkfall íslenskra kvenna, sem sögur fara af, var þegar fiskverkakonur í Hlíf lögðu niður vinnu þann 1. mars 1912 til að þrýsta á um launakröfur. Þetta verkfall stóð í um 6 vikur og náðu konurnur að mestu fram kröfum sínum. Raunar höfðu konur í Hlíf lagt niður vinnu áður, árið 1907, nokkrum mánuðum eftir að félagið var stofnað, til að knýja á um að konur fengju greitt samkvæmt auglýstum taxta. Það verkfall stóð mjög stutt og konurnar náðu sínu fram. Það er því óhætt að halda því fram að tvö fyrstu verkföll kvenna á Íslandi hafi verið í Hafnarfirði og til þeirra efnt af félögum í Hlíf.

Verkalýðsfélagið Hlíf óskar félagsmönnum sínum öllum til hamingju með daginn.

is Icelandic
X