Skip to main content
ATHUGIÐ.
Eftirfarandi efni var srkáð fyrir meira en 1 ári.

Þær áherslur sem í nýlegu fjárlagafrumvarpi ganga þvert á áherslur verkalýðshreyfingarinnar á velferðarkerfi vinnumarkaðarins. Samkvæmt frumvarpinu er dregið úr framlögum til framhaldsskóla sem hætt er við að bitni illa á verk- og tækninámi. Átaksverkefni sem eiga að tryggja atvinnuleitendum aðgang að framhaldsskólum eru aflögð. Mikill niðurskurður er á öllum framlögum til ráðgjafar til atvinnuleitenda og vinnumarkaðsúrræða. Þá ætlar ríkisvaldið ekki að standa við umsamin framlög til starfsendurhæfingarsjóða en þau framlög byggja á samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, segir í ályktun formannafundar ASÍ um velferðarmál sem haldinn var í gær.

Ályktunin fer hér á eftir:

Ályktun um velferðarkerfið á vinnumarkaði

Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ leggur áherslu á mikilvægi öflugs menntakerfis og þess velferðarkerfis á vinnumarkaði sem byggt hefur verið upp að kröfu verkalýðshreyfingarinnar í samstarfi við samtök atvinnurekenda og stjórnvalda og hefur að markmiði að treysta stöðu og bæta hag fólks á vinnumarkaði.

Öflugt velferðarkerfi er forsenda þess að hægt sé að skapa þjóðfélagslega samstöðu sem vinnur gegn fátækt og félagslegri einangrun.  Veita þarf greiðan aðgang að menntun og félagslegri þjónustu, þar sem jafnræði gildir. Samspil öflugs efnahagskerfis og velferðarkerfis, auk öflugrar atvinnustefnu og virkra vinnumarkaðsaðgerða, stuðlar að sjálfbærri félagslegri og efnahagslegri þróun.

Reynslan sýnir að sá hluti velferðarkerfisins á vinnumarkaði sem er undir forræði og rekinn af stéttarfélögunum og samtökum stendur launafólki næst og hefur best staðið af sér niðurskurð síðustu ára.

Menntun fyrir alla:

Hlutfall Íslendinga á aldrinum 25 – 64 ára, sem ekki hafa lokið formlegri framhaldsskólamenntun er hátt í alþjóðlegum samanburði, eða um 30%. Þetta er óásættanleg staða og mun hærra hlutfall en í þeim löndum sem berum okkur saman við. Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar er í áætluninni Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag markmiðið að lækka þetta hlutfall í 10% fyrir árið 2020.

Brottfall ungmenna úr íslenskum framhaldsskólum er mikið og því mikilvægt að grípa til aðgerða til að draga úr því, m.a. með fjölbreyttara námsframboði, ráðgjöf og stoðþjónustu á öllum skólastigum. Þar sem nemendur eru aðstoðaðir við að finna námsleiðir í samræmi við styrkleika þeirra, færni og áhugasvið.

Einnig er mikilvægt að einstaklingar á vinnumarkaði með litla formlega menntun fái annað tækifæri til náms. Liður í því er að samræma mat á óformlegu og formlegu námi og auka þar með möguleika þeirra til náms og starfsþróunar. Gera þarf þá kröfu að menntakerfið verði sveigjanlegra og einstaklingar fái tækifæri til að fá metna þá hæfni og færni sem þeir hafa öðlast til styttingar á námi, m.a. með raunfærnimati. Þá hefur ASÍ lagt ríka áherslu á að efla samstarf launafólks, atvinnurekenda, stjórnvalda og fræðsluaðila við að byggja upp og þróa framhaldsfræðslu. 

Mikilvægur þáttur í menntastefnu til framtíðar er  að efla verk-, og tæknimenntun og annað starfsnám og að þess verði gætt  að þau iðnréttindi sem þegar eru til staðar verði ekki skert.  Jafnframt verði komið á fagháskólastigi. 

Alþýðusamband Íslands krefst þess að hagsmunir launafólks verði tryggðir við mótun mennta- og atvinnustefnu. Yfirvöld og atvinnulíf þurfa að leggja áherslu á framtíðarsýn um þarfir vinnumarkaðarins fyrir menntun  og auka vægi og möguleika framhaldsfræðslu. 

Virkar vinnumarkaðsaðgerðir:

Alþýðusambandið hefur allt frá því að hrunið varð hér haustið 2008 lagt ríka áherslu á öflugar vinnumarkaðsaðgerðir með það að markmiði að skapa atvinnuleitendum skilyrði til að efla sig á vinnumarkaði og fá störf við hæfi. Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða í ágætu samstarfi við samtök atvinnurekenda og stjórnvalda sem skilað hafa mikilvægum árangri. Þrátt fyrir það eru þúsundir einstaklinga hér á landi enn án atvinnu. Stór hluti þessa hóps hefur verið án vinnu í langan tíma og þar af umtalsverður fjöldi fullnýtt bótarétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að byggt verði á þeirri reynslu sem fengist hefur undanfarin ár á sviði virkra vinnumarkaðsaðgerða og bætt um betur. Þar skiptir sköpum:

–       Öflug ráðgjöf og vinnumiðlun á þeim grunni sem byggður hefur verið upp hjá Vinnumálastofnun og STARFi á síðustu misserum. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem þar hefur orðið til og þróa hana enn frekar.

–       Virk vinnumarkaðsúrræði sem miða að því að liðsinna atvinnuleitendum, treysta stöðu þeirra á vinnumarkaði og skapa þeim tækifæri við hæfi. Reynslan hefur kennt að úrræði sem felast í markvissri hæfingu á vinnumarkaði og möguleikum einstaklinga til að sýna hvað í þeim býr með starfsþjálfun og reynsluráðningu á vinnustað skila bestum árangri.  Slík úrræði eru einnig  best til þess fallin að skilja frá þá einstaklinga sem eru á atvinnuleysisbótum á röngum forsendum. Um leið verður að tryggja að slík úrræði séu ekki misnotum af atvinnurekendum. Jafnframt er mikilvægt að þróa frekar aðferðir sem felast í samþættingu náms- og starfstengdra úrræða.

Alþýðusambandið gerir kröfu til þess að allir atvinnuleitendur njóti þeirrar þjónustu sem í boði er, án tillits til þess hvar þeir hafa framfærslu sína.

Við framtíðarskipan þjónustu við atvinnuleitendur og fyrirtæki er mikilvægt að byggja á reynslunni af tilraunaverkefninu með STARFi. Þjónustukannanir sýna að atvinnuleitendur eru ánægðir með þjónustuna og taka því vel að stéttarfélag þeirra er að sinna þeim. Þá eru fyrirtækin einnig ánægð með þá þjónustu sem veitt er.

Starfsendurhæfing:

Á liðnum árum hefur verið byggt upp öflugt kerfi starfsendurhæfingar sem skilað hefur miklum árangri í að greiða þeim sem lent hafa í alvarlegum veikindum eða slysum leið inn á vinnumarkaðinn að nýju. Því er mikilvægt að efla þessa starfsemi og festa hana í sessi.

Tryggja verður að lífeyrissjóðirnir breyti vinnuferlum í tengslum við úrskurð örorkubóta og tryggi fólki aðgengi að ráðgjöfum VIRK. Þá er mikilvægt að taka upp starfsgetumat í stað læknisfræðilegs örorkumats.

Þær áherslur sem í nýlegu fjárlagafrumvarpi ganga þvert á áherslur verkalýðshreyfingarinnar á velferðarkerfi vinnumarkaðarins. Samkvæmt frumvarpinu er dregið úr framlögum til framhaldsskóla sem hætt er við að bitni illa á verk- og tækninámi. Átaksverkefni sem eiga að tryggja atvinnuleitendum aðgang að framhaldsskólum eru aflögð. Mikill niðurskurður er á öllum framlögum til ráðgjafar til atvinnuleitenda og vinnumarkaðsúrræða. Þá ætlar ríkisvaldið ekki að standa við umsamin framlög til starfsendurhæfingarsjóða en þau framlög byggja á samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

 

Það á að vera sameiginlegt markmið stjórnvalda, samtaka launafólks og atvinnurekenda að móta heildstæða stefnu í mennta-, vinnumarkaðs- og velferðarmálum til að öflugt og framsækið atvinnulíf blómstri og búi jafnframt yfir vel menntuðu og hæfu starfsfólki.