Skip to main content

Ályktun frá félagsfundi Hlífar 21. júní 2011

By 22.06.2011April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

ÁLYKTUN

Félagsfundur Hlífar sem haldin var 21. júní 2011, með starfsmönnum sem starfa hjá Hafnarfjarðarbæ fordæmir þau vinnubrögð sem Samninganefnd sambands íslenskra sveitafélaga viðhefur í kjarasamningsviðræðunum við félagið og hvetur samninganefnd Hlífar til að láta ekki af kröfunni um að semja á sömu nótum og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði.

Greinagerð:

Verkalýðsfélagið Hlíf ásamt hinum Flóabandalagsfélögunum og Starfsgreinasambandi Íslands slitu viðræðum við Samninganefnd sambands íslenskra sveitafélaga þann 9. júní s.l. Ástæða þess að slitnaði uppúr viðræðunum var sú að Samninganefnd sambands íslenskra sveitafélaga (SNS) ætlar ekki að fylgja þeirri launastefnu sem 85% vinnumarkaðarins hefur nú þegar samið um. Í vetur var mikil vinna lögð í það að ná sátt á vinnumarkaði og marka þá launastefnu sem nú gengur yfir vinnumarkaðinn. En Samninganefnd sveitafélaganna hefur að þessu sinni lagt ofur áherslu á nýja og breytta launatöflu sem gerir það að verkum að þessir starfshópar sem reynt er að semja fyrir núna eru meðvitað skildir eftir með minni launahækkanir en aðrar starfsstéttir sem búið er að semja  fyrir. SNS heldur þeim rökum fram að lægst launuðustu starfsmenn sveitafélaganna hafi fengið of miklar launahækkanir í tveim síðustu kjarasamningum og verði nú að gefa eftir fyrir millitekju og hærra launuðu starfsmenn sveitafélaganna, nú sé komið að þeim. Það er dapurlegt til þess að hugsa að sum starfsmannafélög (Samflotið) hafa samið við SNS vitandi það að þeir væru að skilja lægst launaðasta hópinn sinn eftir. Þeir sem sitja í samninganefndum starfsmannafélaganna og semja við og fyrir sjálfa sig taka hækkanir sem geta numið tugum þúsunda meira á mánuði en þeir sem skilja á eftir og sveitastjórnarmenn vita af þessu og taka undir þessi sjónarmið. Þessu eru félagsmenn Hlífar sem starfa hjá Hafnarfjarðarbæ ekki sammála og eru tilbúnir í átök með haustinu ef það er það sem þarf til að fá launahækkanir eins og aðrir í þessu samfélagi. Skilaboðin frá fólkinu eru skýr, að samið verði við þau eins og samið hefur verið um við aðra á vinnumarkaði.