Skip to main content

Næstum þrír áratugir frá því að Verkalýðsfélagið Hlíf hóf baráttu fyrir starfsnámi starfsfólks í Straumsvík

Stóriðjuskólann í Straumsvík þekkja margir og flestir félagsmenn Hlífar sem unnið hafa í álverinu þekkja hann af eigin raun. Margir telja sjálfsagt, að skólinn hafi verið settur á laggirnar að frumkvæði fyrirtækisins, en sú er ekki raunin. Skólinn varð til vegna krafna Verkalýðsfélagsins Hlífar í kjarasamningum og það tók nokkur ár og nokkra kjarasamninga að koma málinu í gegn. Frá þessu er sagt í síðasta tölublaði Hjálms.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, þekkir þessa sögu betur en aðrir og hefur haldið saman gögnum um söguna. „Byrjað var að leggja grunn að kröfum um sérhæft starfsnám í álverinu í Straumsvík árið 1993. Fyrirmyndin var sótt til Noregs. Kröfurnar voru fyrst settar fram í samningaviðræðum árið 1995, en náðust ekki fram í það sinn,“ segir Kolbeinn. „Í ÍSAL voru tvær starfsmenntanefndir, önnur fyrir iðnaðarmenn og hin fyrir verkafólk. Iðnaðarmenn áttu náttúrulega til námsefni úr iðnnáminu sem hægt var að sækja beint í. Það var ekkert til fyrir okkur verkamennina.“ Kolbeinn segir að leitað hafi verið til Iðntæknistofnunar og fleiri aðila. Vissulega hafi verið til ýmis námskeið, en þau hafi verið gömul og úrelt að mörgu leyti og efnið þurfti að vinna upp á nýtt. „Við Jóhannes Gunnarsson vorum saman í starfsmenntanefnd verkamanna og ræddum mikið okkar í milli hvað hægt væri að gera til að auka fræðslu okkar fólks. Starfsmannaskipti tíðkuðust á þessum tíma, þannig að farið var að senda fólk héðan til Noregs og þaðan kom fólk hingað. Við komumst þannig í samband við norska kollega okkar og fórum að spyrja þá hvernig þessum málum væri háttað í Noregi. Við fengum hjá þeim talsvert af efni og upplýsingum og segja má að skiptinemar sem fóru héðan til Noregs hafi „smyglað“ námsefni með sér þegar þeir komu til baka. Þannig þróaðist þetta smám saman.“

Náðist loks í gegn í kjarasamningi

Það var svo ekki fyrr en í samningum sem voru undirritaðir 10. apríl árið 1997 að málið náðist í gegn í kjarasamningi og var skilgreint sem tilraunaverkefni. Hlíf og fyrirtækið unnu saman að því að skipuleggja námið og var þá byggt á þeirri vinnu sem áður hafði farið fram og meðal annars horft til reynslu Norðmanna. Kannað var, hvort skólakerfið væri í stakk búið og reiðubúið til að taka námið að sér og rætt við Borgarholtsskóla, Iðntækistofnun og Menningar- og fræðslusamband alþýðu.

„Þá var farið að leita að fjármögnun,“ segir Kolbeinn. „Við sóttum um í Starfsmenntasjóð félagsmálaráðuneytisins – og það voru fleiri með okkur í þessu til að byrja með. Við vildum fá alla stóriðju í landinu sem nýtti 5-600 gráðu hita í framleiðsluna. Íslenska járnblendifélagið og ÍSAL voru með og Steinullarverksmiðjan fylgdist vel með í upphafi. Um þetta leyti varð mikil niðursveifla hjá Járnblendifélaginu, þannig að það stefndi í lokun um tíma. Fyrirtækið setti verkefnið til hliðar meðan tekist var á við þann vanda. Við buðum Norðuráli að taka þátt í þessu, en þar vildu stjórnendur sinna þessu alfarið á eigin forsendum,“ segir Kolbeinn.

Niðurstaðan varð á endanum sú að lokið var við að útfæra námið einungis fyrir ÍSAL. Svo var farið af stað með tilraunaverkefnið. „Við vorum í miklu samstarfi við Iðntæknistofnun og réðum Jón Jóel Einarsson sem verkefnisstjóra til að halda utan um það. Við fengum rúmar 12 milljónir úr Starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytisins til að setja verkefnið í gang og hjólin fóru að snúast fyrir alvöru.“

Í námskrá, sem var undirbúin af fulltrúum frá félögunum, Iðntækistofnun, fyrirtækinu og Borgarholtsskóla, var gert ráð fyrir 325 kennslustundum, sem skipt var í tvo hluta. Fyrri hlutinn var almennur, þar sem meðal annars var fjallað um mannleg samskipti, tjáningu, fyrirtækið og þjóðlífið, stærðfræði, eðlisfræði og rafefnafræði. Í síðari hlutanum var farið yfir framleiðslukerfi í stóriðju, tölvutækni og -stýringar, eldföst efni, vélfræði með áherslu á fyrirbyggjandi viðhald og gæðaeftirlit, vistfræði og umhverfismál.

Námið var ætlað starfsmönnum fyrirtækisins og gert ráð fyrir að þeir hefðu verið að minnsta kosti 45 mánuði í starfi áður en þeir hæfu nám. Gert var ráð fyrir að þeir lykju náminu á tveimur árum og fengju að því loknu starfsheitið „stóriðjugreinir“.

Í Vinnunni, tímariti ASÍ, frá nóvember 1998, var fjallað um fyrstu setningu Stóriðjuskólans í september það ár. Á fyrsta starfsári skólans voru 18 starfsmenn í námi. Gengið var út frá að þetta væri tilraun, sem yrði endurmetin í ljósi reynslunnar. Samkomulag verkalýðsfélaganna og ÍSAL um námið fól í sér að öllum starfsmönnum væri frjálst að sækja um. Lykju þeir náminu, voru þeir skuldbundnir til að starfa hjá fyrirtækinu, í sömu deild, að minnsta kosti eitt ár.

Hluti námsins, sem samsvaraði 25 einingum í framhaldsskóla, fór fram á vinnutíma, en hluti í eigin tíma starfsmanna. Þeir skyldu halda reglulegum launum meðan þeir væru í náminu.

Kolbeinn Gunnarsson, núverandi formaður Hlífar, þekkir aðdragandann að stofnun Stóriðjuskólans mjög vel, en hann ásamt Jóhannesi Gunnarssyni voru helstu hvatamenn þess að málinu var hreyft í upphafi og sett í kröfugerð fyrir kjarasamninga.

Námið metið til launa

Í febrúar 1998 var gengið frá samkomulagi um með hvaða hætti námið skyldi metið til launa. „Það gekk þannig fyrir sig,“ að sögn Kolbeins, „að þegar gengið var frá þessu í kjarasamningi, var okkur falið að útfæra í samstarfi félagsins og fyrirtækisins með hvaða hætti skyldi umbuna fyrir námið, þegar við sæjum hvert umfangið væri, hvernig þátttakan yrði og hvernig þetta skilaði sér til manna. Ég fundaði reglulega með Sigurði Briem hjá álverinu. Ég var alltaf með í huga að þetta ætti að gefa mönnum um 15% ofan á launin, en Sigurður var frekar á því að þetta væru 3-5%. Um þetta vorum við búnir að þvarga í dálítinn tíma.“ Í samningunum höfðu verið gerðar ýmsar breytingar varðandi launaflokka. Þeim var fækkað úr fimmtán í fjóra. „Á einum fundinum stakk ég upp á að við leystum málið með því að hækka hvern þann sem lyki náminu um einn launaflokk. Sigurður stendur upp, réttir mér höndina og við handsölum þetta, en um leið áttar hann sig á að búið er að breyta launatöflunni. Þar sem áður voru 2-3% á milli launaflokka, voru þau orðin 10,5% hjá dagvinnumönnum, en 9,5% hjá vaktavinnumönnum. Sigurður er stálheiðarlegur og stóð við þetta, þótt það væri byggt á misskilningi í upphafi.“

Sett var á fót prófanefnd, sem í sátu Kolbeinn, einn frá ÍSAL og einn frá Iðntæknistofnun. „Við sáum fljótt að þarna lærðu menn mjög margt, sem þeir höfðu ekki haft tök á áður. Þarna var um að ræða grunnþætti í tölvunotkun og Excel og ýmislegt fleira, sem nýttist þeim bæði í einkalífi og starfi. Það var heilmikill áfangi fyrir marga að fara í gegnum þetta nám.“

Stóriðjuskólinn enn í gangi

Þótt þetta hafi verið tilraunaverkefni til að byrja með, hefur skólinn fest sig í sessi og nýir og nýir hópar farið í gegnum námið. Að sögn Kolbeins hafa flestallir verkamenn suðurfrá lokið náminu. Námsefnið sé uppfært í samræmi við þróun, en grunnurinn sé enn sá sami. „Síðan hefur verið byggt ofan á og nú er kominn Stóriðjuskóli 2. Þar eiga iðnaðarmennirnir aðgang líka. ÍSAL hefur þróað þann hluta sjálft,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir að Stóriðjuskólinn, það er fyrri hlutinn, hafi næstum alfarið verið að frumkvæði félagsins. Síðan hafi starfsmönnum og félaginu verið ýtt til hliðar, til dæmis í prófanefndinni og utanumhaldinu, þannig að nú sé skólinn næstum alfarið á forræði fyrirtækisins, sem hefur samið við ýmsa um framkvæmd, svo sem Iðnskólann og Borgarholtsskóla.

„Mér finnst að það þyrfti að vera meira samstarf og nauðsynlegt að til sé samstarfsnefnd um málið. Ég held að það sé sterkara að við gerum þetta saman. Menn eru sammála um þetta hafi skipt miklu máli fyrir þróun fyrirtækisins og sumir taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja að fyrirtækið væri líklega ekki starfandi í dag ef starfsfólkið hefði ekki búið að þeirri þekkingu sem það fékk með því að ganga í gegnum Stóriðjuskólann“. Kolbeinn segir mörg dæmi um, að þegar upp hafa komið vandamál erlendis, til dæmis vegna straumleysis þannig að frosið hefur í kerjum, hafa verið lánaðir menn héðan til að endurræsa.

„Það væri skynsamlegt að opna aftur fyrir samstarfið. Það er farsælla í verkefnum af þessu tagi og rétt að við tökum upp samræður um það, núna þegar fyrir liggur þessi langi kjarasamningur sem léttir á öllum samskiptum og gefur okkur tíma og svigrúm til að ræða önnur mál en bara þau sem snúa að því sem er í umslaginu,“ segir Kolbeinn að lokum.

Sigurður stendur upp, réttir mér höndina og við handsölum þetta, en um leið áttar hann sig á að búið er að breyta launatöflunni. Þar sem áður voru 2-3% á milli launaflokka, voru þau orðin 10,5% hjá dagvinnumönnum, en 9,5% hjá vaktavinnumönnum.

Vinnan, tímarit ASÍ, fjallaði um stofnun og fyrstu setningu Stóriðjuskólans í nóvember 1998.