Skip to main content

Category

Fréttir

Allar almennar fréttir

Góður fundur með foreldrum

By Fréttir

Næstum allir almennir starfsmenn á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar segja álag hafa aukist í síðustu sex mánuðum. Meira en helmingur segir óalgengt að deild sé fullmönnuð. Um fjórir af hverjum 10 segja að deild hafi verið lokað á undanförnum sex mánuðum vegna manneklu og tveir af hverjum þremur segja að þær aðstæður hafi komið upp að það hefði átt að loka – þótt það hafi ekki verið gert. Um 70% starfsfólks segjast hafa íhugað að hætta vegna álags á undanförnum sex mánuðum.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi sem Verkalýðsfélagið Hlíf hélt með fulltrúum í foreldrafélögum og foreldraráðum til upplýsingafundar í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn bæði „á staðnum“ og á zoom. Tilgangurinn var einkum að upplýsa fulltrúana um samskipti félagsins við Hafnarfjarðarbæ út af málefnum leikskólastarfsfólks og segja þeim frá niðurstöðum könnunar sem félagið hefur gert meðal almenns starfsfólks á leikskólum bæjarins.  

Á fundinum voru samskipti félagsins við ráðamenn undanfarin misseri rakin. 

Leikskólastarfsmaður biðst afsökunar!

By Fréttir

Félaginu hefur borist í hendur bréf, þar sem leikskólakennari biður börn og foreldra afsökunar á því að geta ekki sinnt starfi sínu nóg vel – vegna manneklu á leikskólanum. Hlíf hefur fengið heimild til að birta bréfið.

Afsakið

Við starfsmenn leikskólans erum að sligast undan álagi vegna manneklu sem er vegna veikinda (fólk er að brenna út), vinnutímastyttingar og fjarveru leikskólakennara við umönnun/kennslu þar sem það kemur ekki afleysing vegna undirbúningstíma þeirra. Það eru of mörg börn á hvern starfsmann og of lítið rými fyrir börn og starfsmenn. (Eins og síld í tunnu).

Þess vegna vil ég biðja börnin á leikskólanum afsökunar.

Mig langar að biðja barnið afsökunar sem ég gat ekki tekið í fangið og huggað eftir að það var bitið í handlegginn, vegna þess að ég þurfti að stoppa gerandann svo fleiri börn yrðu ekki bitin.

Ég vil biðja litla drenginn afsökunar sem ég gat ekki leyft að fara inn þegar honum var kalt – vegna þess að það var enginn starfsmaður inni. (Ég gat sett á hann nýja vettlinga og knúsað hann).

Eins vil ég biðja barnið afsökunar sem ég þurfti að klæða í drulluskítug og rök föt á mánudagsmorgni, ég hafði ekki fleiri föt til að lána.

Ég vil biðja litlu börnin afsökunar á að flýta mér að skipta á bleyjum og klæða þau í útiföt. Það er ekki tími til að spjalla eða setja orð á athafnir þar sem það bíða grátandi börn eftir þjónustu.

Mig langar líka að biðja hópinn minn afsökunar á að geta ekki klárað lestrarstundir/vinnustundir þar sem einn nemandinn tekur alla athygli (þyrfti stuðning).

Að lokum vil ég biðja foreldra afsökunar á að hafa lítinn tíma í spjall í lok dags, vegna fjölda barna í langri vistun og fárra starfsmanna seinni partinn.

Hvar er virðingin fyrir börnunum okkar? Hún sést ekki í launaumslaginu eða í vinnuaðstöðu okkar. Það er talað um á tyllidögum að við kennarar sinnum merkilegasta starfinu. En afsakið – það eru bara falleg orð á blaði.

Með afsökunarkveðjum

Leikskólakennari í Hafnarfirði.

Virðingarleysi bæjaryfirvalda við lægstlaunaða starfsfólkið

By Fréttir

Vinnufundur trúnaðarmanna á leikskólum í Hafnarfirði var haldinn í gær. Fundurinn var vel sóttur og mikill hiti í þátttakendum. Á fundinum var m.a. farið yfir niðurstöður könnunar sem gerð hefur verið meðal starfsfólksins og þær ræddar. Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Fundur trúnaðarmanna Hlífarstarfsfólks í leikskólum hjá Hafnarfjarðarbæ harmar viðbrögð bæjarins við málefnalegum kröfum og málaleitunum Hlífar vegna stöðunnar á leikskólunum. Félagið hefur um langt skeið bent á misræmi í kjörum starfsfólks á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar og þeirra sem starfa í nágrannasveitarfélögunum. Þar munar tugum þúsunda á mánuði. Þetta hefur þýtt, að tugir starfsmanna hafa hætt og ráðið sig í vinnu í nágrannasveitarfélögunum. Fjölmargir aðrir hugleiða að gera það.

Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með viðbrögð meirihluta bæjarstjórnar og ekki síður fræðsluráðs við málaleitan Hlífar. Viðbrögðin lýsa fullkominni afneitun á stöðunni og eru ekki til þess fallin að draga úr vonleysi og reiði starfsfólksins. Viðbrögðin lýsa fullkomnu virðingarleysi við lægstlaunaða starfsfólk bæjarins og mikilvægi starfa þess. Án þessa hóps væri ekki mögulegt að starfrækja leikskólana. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á stöðunni sem upp er komin á hendur bæjaryfirvöldum. Komi upp alvarleg atvik á leikskólunum vegna undirmönnunar, þá er það á ábyrgð yfirvalda og bein afleiðing aðgerðaleysis þeirra í málefnum starfsfólks.

Varað við sölu á Mílu

By Fréttir

Stjórnvöldum ber að standa vörð um grunninnviði landsins og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu, segir í ályktun miðstjórnar ASÍ um áformaða sölu á Mílu. Miðstjórnin krefst þess að gripið sé til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni. Ályktunin fer hér á eftir:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar sterklega við sölu á grunnneti íslenska símakerfisins úr landi. Innviðir fjarskiptakerfisins eru dæmi um starfsemi sem í eðli sínu ber helstu einkenni náttúrulegrar einokunar þar sem mikill kostnaður við að setja upp slíkt kerfi kemur í veg fyrir samkeppni. Slík einokun getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera aðila þar sem ákvarðanir um verðhækkanir eru teknar einhliða og neytendur eiga ekki í önnur hús að venda. Áhrifin geta oft margfaldast í tilfelli dreifðari byggða.

Um allan heim leitast fjármagnseigendur við að komast yfir samfélagslega innviði þar sem innkoman er stöðug en einnig mögulegt að draga fjármagn út með einföldum hætti. Þar geta skapast óeðlilegir hvatar til að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, selja eignir og skilja eftir lítið annað en skel utan um starfsemina. Slík hætta er raunveruleg og í tilviki Mílu er ljóst að íslenskt samfélag sæti uppi með kostnaðinn, auk þess sem röskun á starfsemi Mílu gæti hamlað eðlilegu gagnverki samfélagsins. Áhættan liggur því hjá íslenska ríkinu og þar með íslenskum almenningi, ekki hjá erlendum fjárfestum. Gróði eigenda Símans getur orðið skammgóður vermir, en þar á meðal eru nokkrir lífeyrissjóðir sem samanlagt fara með meirahlutaeign og bera skyldur gagnvart samfélaginu öllu.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni í málinu og bæti þannig fyrir fortíðarmistök þegar grunnnet símakerfisins var einkavætt samhliða sölu á Símanum. Hagsmunir sem varða þjóðaröryggi eru aðeins einn hluti af stærra vandamáli. Ekki nægir að vísa til umræðu á vettvangi Þjóðaröryggisráðs sem fram fer fyrir luktum dyrum, enda snertir þetta mál samfélagið allt, uppbyggingu þess og atvinnulíf. Stjórnvöldum ber að standa vörð um grunninnviði landsins og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu.

Trúnaðarmenn á námskeiði

By Fréttir

Nú stendur yfir Trúnaðarmannanámskeið 3 hjá trúnaðarmönnum Hlífar. Námskeiðið hefur lengi staðið til, en fjórum sinnum verið aflýst vegna Covid-19 faraldursins. Félagið áformar að standa fyrir fjölbreyttri fræðslu, bæði í haust og á vormánuðum.

is Icelandic
X