Skip to main content
Category

Fréttir

Sleggjudómar um atvinnuleitendur

By Fréttir

Mikið hefur borið á fordómum og sleggjudómum í garð atvinnuleitenda undanfarna daga. Í ályktun sem miðstjórn ASÍ sendi frá sér í dag, er varað við því að ýtt sé undir fordóma í umræðu um fólk í þeirri stöðu.

Ályktun miðstjórnarinnar fer hér á eftir:

 

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar sleggjudóma í opinberri umræðu um málefni atvinnuleitenda. Sú umræða er ekki studd gögnum og er úr hófi fram neikvæð og einhliða. Miðstjórn varar við því að ýtt sé undir fordóma í umfjöllun um vanda þeirra sem glíma við atvinnuleysi.

Miðstjórn ASÍ vísar til fullyrðinga nokkurra atvinnurekenda sem birst hafa í tilteknum fjölmiðlum síðustu daga og rætt um meint áhugaleysi atvinnuleitenda um að þiggja boð um vinnu. Látið er að því liggja að atvinnuleysisbætur séu nú svo háar að þær letji fólk til að taka þau störf sem í boði eru.

Miðstjórnin minnir á að atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Þau dæmi sem hafa verið nefnd og fjölmiðlar hafa gert að fréttaefni heyra til undantekninga og ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á þeim, hvorki af hálfu atvinnurekenda né Vinnumálastofnunar. Átakið Hefjum störf  hefur nú þegar skilað miklum árangri og fjöldi fólks þegið vinnu á þeim grundvelli. Tal um að atvinnuleysisbætur séu úr hófi fram háar í landinu stenst enga skoðun. Grunnbætur nema 88% af lágmarkstekjutryggingu en á árunum 2006–2010 var það hlutfall á bilinu 90–100%. Tekjufall atvinnulausra í COVID-kreppunni er að jafnaði 37% og því augljós að fólk gerir það ekki að gamni sínu að hafna vinnu.

Miðstjórn ASÍ vekur athygli á því að aðflutt verkafólk er í meirihluta þeirra sem nú eru án atvinnu  og varar við fordómum í garð þessa hóps sem auðveldlega má lesa úr orðum þeirra atvinnurekenda sem fram hafa komið í fjölmiðlum. Forkastanlegt er að veitast með þessum hætti að fólki í sérlega erfiðri og viðkvæmri stöðu.

Miðstjórn ASÍ vekur athygli á skýrum merkjum þess að einstaka atvinnurekendur hyggist hefja rekstur á ný með því að þrýsta niður launum starfsfólks. Miðstjórnin krefst þess að ferðaþjónusta verði ekki endurreist á grundvelli lakari kjara og starfsumhverfis en áður.

Miðstjórn ASÍ minnir á að þeir atvinnurekendur sem nú veitast að atvinnuleitendum hafa um margra mánaða skeið notið margvíslegra opinberra styrkja. Þeir hinir sömu geta nú að auki ráðið starfsfólk með beinum stuðningi. Með öðrum orðum er það almenningur á Íslandi sem haldið hefur fyrirtækjum atvinnurekenda á lífi.

Miðstjórn ASÍ hvetur atvinnurekendur og fjölmiðla til að láta af neikvæðri og beinlínis fordómafullri umfjöllun um atvinnuleitendur. Góðar og gildar ástæður geta verið fyrir því að atvinnuleitandi geti ekki þegið tiltekið starf. Með því að einblína á undantekningar sem kunna að eiga við færri en 2% atvinnuleitenda er dregin upp röng og meiðandi mynd af þeim þúsundum manna sem leita vinnu á Íslandi og hafa loks fengið von um að brátt taki við betri tíð.

Gul stéttarfélög – nýtt hlaðvarp frá ASÍ

By Fréttir

Umræða um svokölluð gul stéttarfélög hefur verið áberandi að undanförnu og þá einkum í tengslum við Flugfélagið Play en Íslenska flugstéttarfélagið, sem Play hefur samið við, virðist bera öll merki þess að vera „gult stéttarfélag“. Slík félög standa alla jafna utan heildarsamtaka launafólks, eins og ASÍ, og ganga jafnvel erinda atvinnurekenda og gegn hagsmunum launamanna.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, þekkir vel sögu verkalýðshreyfingarinnar en hann hefur sérstaklega kynnt sér svokölluð gul stéttarfélög. Í þessu viðtali (14:44) segir hann frá slíkum félögum í nútíð og fortíð.

Hér er hlekkur á viðtalið

Tekist á um grundvallaratriði á vinnumarkaði

By Fréttir

„Leiðin að hjarta Íslendinga liggur í gegnum fríhöfnina og ódýra flugmiða til útlanda. Það er stór hluti af lífsgæðum okkar að geta ferðast til útlanda, ná í sól og aðra menningu og víkka sjóndeildarhringinn. Slíkt er ekki síst mikilvægt fólki sem býr á eyju í miðju Atlantshafinu. Það er því ekkert skrýtið að margir fagni samkeppni í flugrekstri,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. Hún heldur áfram…

Þegar miðstjórn ASÍ hvetur til sniðgöngu á fyrirtæki er það ekki létt og lágstemmd yfirlýsing heldur er mikið í húfi og staðan mjög alvarleg. Hér er ekki aðeins um kjör starfsfólks Play að tefla. Hér er tekist á um grundvallaratriði á íslenskum vinnumarkaði og ef rangt er á haldið geta afleiðingarnar orðið afdrifaríkar fyrir allan almenning.

Félagið sem gerir samning við Play er fyrrum stéttarfélag flugmanna hjá WOW-air. Samþykktum félagsins var breytt þannig að það næði yfir flugfreyjur og flugþjóna, en sem kunnugt er hafði félagið ekki hafið flug og því ekki með áhafnir á sínum snærum. Play gerir síðan samning við félagið um kjör flugfreyja og -þjóna áður en ráðningar í slík störf hefjast. Ekki er ljóst hver undirritar samninginn eða samþykkir fyrir hönd vinnandi fólks. Félagið ber skýr merki þess að vera svokallað „gult“ stéttarfélag en slík félög hafa víða verið lykilleikendur í skipulögðu niðurbroti stéttarfélaga. Samningurinn er þannig ekki gerður af hópi vinnandi fólks í krafti samstöðu innan stéttarfélags við atvinnurekanda.

Kjörin í þessum samningi eru lægri en áður hafa sést í þessum geira og almennt lægri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Er það í samræmi við kynningar flugfélagsins (þegar félagið hét enn WAB) þar sem félagið reyndi að ganga í augu fjárfesta með fyrirheitum um að flugfreyjur og -þjónar fengju greidd umtalsvert lægri laun en höfðu tíðkast hjá WOW air. Íslenska flugstéttarfélagið og Play hafa ekki viljað láta kjarasamninga sína af hendi en ASÍ hefur þá undir höndum og staðfestir hér enn á ný að þar er kveðið á um að grunnlaun séu 266.500 krónur fyrir nýliða. Play mun halda áfram að þyrla upp ryki og dreifa öðrum upplýsingum á valda fjölmiðla og senda frá sér misvísandi yfirlýsingar. Eina leiðin fyrir Play að sýna fram á að þar sé starfsfólki í flugi boðið upp á mannsæmandi laun er að leggja fram undirritaðan kjarasamning sem gerður er við raunverulegt stéttarfélag vinnandi fólks.

Kjörin skipta máli en vinnubrögðin eru það alvarlegasta. Hér er á ferðinni niðurbrot á skipulagðri hreyfingu launafólks en einmitt sú hreyfing á hvað ríkastan þátt í því að á Íslandi eru lífsgæði almennt góð. Ef Play leyfist að plokka sjálfsögð réttindi af vinnandi fólki og bjóða lág flugfargjöld með undirboðum í launum þá munu önnur fyrirtæki feta þessa sömu leið, jafnvel í nafni þess að það sé sérstakt frelsimál fyrir vinnandi fólk að geta valið sig frá réttindum í sjúkrasjóðum eða til fjarvista vegna veikinda barna. Baráttan gegn Play er barátta gegn slíkri framkomu atvinnurekenda á íslenskum vinnumarkaði. Ef launafólk á viðskipti við fyrirtækið og fjárfestar veita því brautargengi er um leið verið að leggja blessun sína yfir þessi vinnubrögð. Þess vegna enduróma ég enn og aftur samþykkt miðstjórnar ASÍ. Nei við Play!

Sveitarfélögin fá falleinkunn – SGS hvetur þau til að standa við gerðan kjarasamning

By Fréttir

Sveitarfélögin hafa ekki staðið við ákvæði í gildandi kjarasamningi um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu, að því er fram kemur í ályktun sem formannafundur Starfsgreinasambands Íslands samþykkti rétt í þessu. Skorað er á Sambandið og sveitarfélögin að taka sér tak og standa við gerðan samning. Ályktunin fer hér á eftir.

Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því í áratugi að vinnuvikan verði stytt hjá launafólki. Í kjarasamningum við ríki og sveitarfélög sem undirritaðir voru 2020 voru stigin þýðingarmikil skref til styttingar vinnuvikunnar. Innleiðing þeirra breytinga í dagvinnu sem tóku gildi 1. janúar 2021 á nú að vera komin til framkvæmda. Í þeirri vinnu skiptir öllu máli að opinberir vinnuveitendur standi við kjarasamninginn og tryggi launafólki þá styttingu sem um var samið.

Formannafundur SGS haldinn í Mývatnssveit, 20. – 21 maí 2021, lýsir yfir miklum áhyggjum með framkvæmd á útfærslu styttingar vinnuvikunnar hjá sveitarfélögunum um land allt. Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitafélögin vítt og breytt um landið hafa ekki sinnt verkefninu og fá algera falleinkunn. Samantekin tölfræði sýnir að starfsfólk á skrifstofum semur um fulla styttingu án teljandi vandkvæða en starfsfólk í  leik- og grunnskólum og slíkum störfum fái litla eða enga styttingu. Ríki og Reykjavíkurborg hafa staðið sig betur.

Fundurinn skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin að hysja upp um sig buxurnar og standa við gerðan kjarasamning.

Translate »