Flokkur

Fréttir

SGS mótmælir boðuðum uppsögnum á hjúkrunarheimilum

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega boðuðum uppsögnum á hjúkrunarheimilum í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabæ. Það er aumur fyrirsláttur hjá ríkinu að það sé nauðsynlegt vegna yfirfærslu rekstarins frá sveitarfélögum til ríkisins og hrein svik á því sem stéttarfélögum starfsmanna hefur verið gefið til kynna.

Það eru algerlega forkastanleg vinnubrögð hjá Heilbrigðisráðuneytinu að krefjast þess að allt að 150 starfsmönnum verði sagt upp,  sem eru að langmestu leyti konur í láglaunastörfum, að því að virðist með það að markmiði að ráða þær aftur til starfa undir öðrum kjarasamningi og á lægri kjörum.

Á landinu er atvinnuleysi í sögulegu hámarki og koma þessar fyrirhuguðu uppsagnir í framhaldi af öðrum uppsögnum á Heilbrigðisstofnunum á svæðinu sem er grímulaus aðför að láglauna kvennastéttum.

Þessa ruddalega framkoma eru ótrúlegar kveðjur til þessa fólksins sem hefur unnið sín mikilvægu störf undir miklu álagi undanfarin misseri.

SGS krefst þess að hætt verði uppsagnirnar og málið leyst þannig starfsfólkið haldi vinnu sinni og kjörum.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

By Fréttir

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni efna helstu samtök launafólks á vinnumarkaði til opins rafræns fundar undir yfirskriftinni „Konur í kafi – kynjajafnrétti á tímum heimsfaraldur“.

Dagskrá:
„Bakslag eða afhúpun: Heimilislíf og jafnrétti í fyrstu bylgju Covid frá sjónarhóli mæðra.“ Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræði við HA, og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við menntavísindasvið HÍ.
„Framlínukonur á tímum Covid.“ Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
„Spritta, tengjast, vinna.“ Donata Honkowicz-Bukowska, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með íslensku sem annað mál.
Umræður

Fundarstjóri er Drífa Snædal, forseti ASÍ.Viðburðurinn verður tekinn upp og aðgengilegur fljótlega eftir fundinn.

Zoomslóð á fundinn https://us02web.zoom.us/j/85277321283

Félagsmannasjóðurinn

By Fréttir

Enn eiga einhverjir starfsmenn sveitarfélaga og Hjallastefnunnar eftir að fá greitt úr félagsmannasjóði. Skýringin er í langflestum tilvikum sú, að við höfum ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar frá viðkomandi. Þeir sem telja sig eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum og hafa ekki fengið, eru beðnir að senda tölvupóst á gra@hlif.is, eða hringja í 510 0800.

Ekki er jafnréttið mikið í raun!

By Fréttir

Föstudagspistill Drífu Snædal, forseta ASÍ fer hér á eftir:

Í upphafi síðustu aldar töldu ýmsir að kosningaréttur kvenna væri lykillinn að kvenfrelsi. Síðar vöktu lög um jöfn laun fyrir sömu störf svipaðar væntingar. Konur fóru í stórum stíl út á vinnumarkað og þau störf sem áður voru unnin ólaunað heima voru orðin launuð störf. Þessi störf voru og eru hins vegar vanmetin til launa – ekki alveg alvöru störf – ekki svona mikilvæg eins og sum önnur störf sem lengur hefur tíðkast að greiða fyrir. Til að auka verðmæti kvennastarfanna var menntastigið hækkað og konur þustu í nám. Í raun er eina leið kvenna til að hafa möguleika á að framfleyta sér og börnum sínum að mennta sig á meðan í boði eru vel launuð hefðbundin karlastörf sem krefjast ekki menntunar. Ójafnt hlutfall kynjanna í háskóla er því ekki endilega birtingamynd á vanda karla eða drengja heldur vanda vinnumarkaðar sem metur ekki konur að verðleikum.

Nú birtast upplýsingar úr tekjusögunni sem sýna að vel menntaðar konur eru á pari við minna menntaða karla í launum. Þetta er afleiðing hins skipulega vanmats á kvennastörfum sem er svo rótgróið í okkar menningu að við erum hætt að taka eftir því. Af hverju erum við í þessari stöðu á sama tíma og við státum okkur af árangri í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi? Svarið við því er meðal annars að finna í umræðunum um fæðingarorlofið þar sem sum héldu því fram að við hefðum náð svo langt í jafnrétti að handaflsaðgerðir væru orðnar ónauðsynlegar. Það er langt í frá og ekkert sem bendir til þess að jafnrétti sé að aukast. Þvert á móti hefur skýrasta mælingin á misrétti – launamunur kynjanna – staðið í stað síðustu ár. Við höfum enn verk að vinna að breyta menningunni til kvenfrelsis og við skulum byrja á því að meta störf kvenna með réttum hætti.