Skip to main content

Í fjórða tölublaði Hjálms, sem kom út 16. desember 1912, birtist hvatning frá félagsmanni sem kallar sig Úlfljót (hugsanlega ritstjóri), til kvenna í félaginu um að hafa sig meira í frammi. Teljast verður ólíklegt að nokkrum manni dytti í hug að setja texta af þessu tagi á blað í dag, nema þá í besta falli í mikilli kerskni.

Ekki hefur hvatningin farið vel í alla félagsmenn, því strax í næsta tölublaði, sem kom út 23. desember 1912, birtist grein til andsvara eftir karl sem skrifar undir höfundarnafninu „Kvenhollur”.
Byrjum á grein Úlfljóts.

Jeg man svo langt að í fyrravetur, þegar verkmannafélagið var reist úr rústum, að þá fjölmenntu konur mjög þangað, eins og þær gjöra raunar enn.

Þá var áhugamál þeirra á dagskrá, sem sé kauphækkun, þá vóru það margar þeirra, sem tóku til máls, sem sjálfsagt var, og mér virtust jafnvel ræður þeirra sumra, eigi mikið lakari en hjá oss körlum sumum hverjum; en svo var þessu máli ráðið til likta, á þann hátt, að þær máttu vel við una; en það stakk líka í stúf, frá þeim tíma minnist ég ekki að hafa heyrt eða séð nokkra konu standa upp og halda svo mikið sem 3 þuml. langan ræðustúf, og hef þó verið á flestum fundum sem haldnir hafa verið í þessu félagi.

Mig langar til að spyrja, hver er ástæðan? Hafa konur ekki nokkurn áhuga nema fyrir þessu eina máli, ekki áhuga fyrir öðru en þessum fáu aurum sem þær fengu í kauphækkun um tímann? er þeim sama um allt annað sem að félagsskap vorum lýtur? sé svo, þá væri betur heima setið, eða eru það prjónarnir og heklið sem þær hafa með sér á fundum, sem neglir svo öll þeirra sálaröfl að þær meiga ekki orð mæla, nema hljóðskraf sem heyra má um alla bekki?

Spyr sá sem ekki veit, segir Jón Ól. Jeg fyrir mitt leyti hygg, að þessu sé ekki svo farið, sem ég hef áður talið, eða að minsta kosti ekki að öllu leyti; ég hygg það sé öllu heldur hugsunarleysi og ef til vill óframfærni þeirra að kenna, að þetta gengur svo til. En þetta má ekki svo til ganga; þið verðið konur að láta skoðun ykkar í ljósi, á þeim málum sem félagið varðar, því það er hart að fá ekki nokkra vitneskju um það hvernig þið konur munið snúa ykkur, í því og því málinu, sem verið er að ræða, engin yfirlýsing um það frá nokkurri konu, heldur koma atkvæði ykkar eins og skollinn úr sauðarleggnum og annaðhvort styðja málið eða kollvarpa því.

Hafið það hugfast konur, að nú eru miklir kvenfrelsis tímar, þið kveinið og kvartið undan, – mér liggur við að segja, hinu ímyndaða oki sem vér karlar leggjum ykkur á herðar, þið viljið hafa kjörgengi og kosningarrétt í bæjarstjórn og á alþingi, og hver veit hvað, langar jafnvel til að hafa endaskifti á heiminum ef kostur væri. Til þess að vera færar um þetta, verðið þið að gjöra ykkur ljósa grein fyrir málefnum þeim, sem þið eigið um að fjalla, annaðhvort greiða atkvæði með eða mót þeim, eða til að starfa að þeim á annann hátt.

Greiðasti vegurinn er, að hugsa um mál þau sem fyrir fundinum liggja, og ræða þau frá ykkar sjónarmiði, því skoðanamunur getur orðið um þau ykkar á milli, og víst gætuð þið ef til vill, bent okkur á eitthvað sem við ekki sjáum karlmenn, þegar vér erum að ræða einhver mál.

Jeg vonast eftir að jeg áður langt um líður, fái þá ánægju að heyra hljóma snjallar ræður frá ykkur konur og meyjar, sem ég vona að verða mættu til þess að gera félag vort enn traustara.

(Úlfljótur)

Hvað segir Kvenhollur?

Heill og sæll „Hjálmur” minn! Gaman þykir mér að senda þér dálítinn greinar-stúf, svo fólkið geti átt kost á að heyra hversu heimskur ég er þá láta skal það í ljósi er mér býr í brjósti, og bið ég þig vel virða, getur og verið að ég sendi þér einhverntíma meira ef ég finn eitthvað í pokahorninu mínu. Í síðasta blaði þínu er grein eftir „Úlfljót” með fyrirsögninni, (ef ég man rétt.) „Hversvegna eru konur hættar að tala á fundum.”? Grein þessi virðist bera það með sér að höfundur hennar veiti að jafnaði meiri eftirtekt kvenfólki en karlmönnum á fundum. Hann talar þar eingöngu um kvenfólkið en minnist ekki einu orði á karlmennina, og finst mér betur viðeigandi sem ég vil og gjöra í grein minni, að minnast á hvortveggja. Höfundur segir að í fyrra hafi konur talað á fundum þá er um kauphækkunina var að ræða, og þá eigi tekist miður en mörgum af karlmönnunum, satt er það, en hvað gjörðu karlmennirnir þá.? Þegar ein eða fleiri konur stóðu upp til að láta álit sitt í ljósi um málin, þá var eins og samtök mynduðust meðal nokkuð margra af karlmönnunum, til þess að gjöra grín og hlátur að ræðum þeirra. Af hverjum ástæðum þeir gjörðu þetta, er mér ekki ljóst.

Hvort það hefur verið af því að þær voru ekki eingöngu í buxum, eða af því að þeir hafa þóst því að meiri menn fyrir tiltækið, skal jeg ekki um dæma, en þeir einir munu það verið hafa, sem að einhverju leyti hafa skoðað sig stærri persónur en kvenþjóðina, og er slíkt engin uppörfun fyrir þær að tala.

Hvernig mundi hverjum einstökum þessara manna hafa geðjast að því, ef bæði karlar og konur hefðu gjört þeim hið sama, jeg hygg að ræðan hefði orðið endaslepp, en þeir sjá við því á þann hátt að láta aldrei skoðanir sínar í ljósi fremur en kvenfólkið. Höf. segir á einum stað, að atkvæði kvenna komi eins og skollinn úr sauðarleggnum, annaðhvort til að styðja málin eða fella þau, og á öðrum stað, segir hann, að þær eigi að greiða atkvæði annaðhvort með eða móti. Þessa nákvæmni eða samræmi skil ég ekki, en hitt skil ég, að bekkur þeirra taki að gjörast vandsetinn frá sjónarmiði þessa „Úlfljóts”.

Hann segist ekki muna að konur hafi talað neitt á fundum síðan kauphækkunin var á dagskrá, en jeg man ekki betur en að þær hafi þó eitthvað dálítið talað í haust.

En nú vil eg spyrja. Hvað hafa karlmennirnir gjört í haust þegar þessir 7-8 menn sem aðallega halda upp ræðum á fundum, hafa verið að ræða mál sem ef til vill snerta þá öllu fremur en konur.? Gott hefði mátt þykja hefðu þeir setið þegjandi og kyrir á bekkjunum þar til komið var að atkvæðagreiðslu, því þá hefði þögnin verið tekin sem samþykki, hvort sem skoðun þeirra á málunum hafi verið nokkur eða engin. Nei! Þeir hafa mjög oft gengið burt af fundi hvernig sem á hefir staðið, og þó margt sé ábótavant hjá konum, þá á þetta sér þó engu síður stað hjá körlum. Eitt er enn, sem höf. virðist finnast ógeðfelt, sem sé það, að konur hafi handavinnu meðferðis og getur þess jafnvel til að aðal-erindið á fundi sé það að sýna sig með prjónana sína og heklið sitt. Mér þykir líklegt að höf. sé svo kunnugur konum og störfum þeirra, að hann viti að þær hafa alltaf nóg að gjöra heima-fyrir, og oft svo, að þær ekki geta komist á fund, mun þeim því þykja viðkunnanlegra að halda á prjónum sínum eða hekli, heldur en sitja þar auðum höndum.

Það situr líka illa á oss körlum að líta hornauga til prjónandi kvenna, því fæstir gjörum vér mikið að því, að hlúa að oss sjálfir með þjónustubrögðin. Nú kann einhver að hugsa sem svo, að oft sjáist ungu stúlkurnar á götunni þegar hallar degi, en við meigum ekki setja þær á bekk með karlægum kerlingum, og lofa þeim aldrei að lyfta sjer upp úr sæti sínu. Má vera að mönnum þyki jeg nú kominn of langt út frá umtalsefninu en jeg vona að það sé ekki með öllu fjarskylt því. Hvað gjöra margir karlmenn þegar lítið er um atvinnu? Gangi maður eftir Strandgötunni fyrri part dags, sjást oft hópar af karlmönnum undir húsgöflunum; lítið held jeg þeir gjöri þar þarflegt. Komi maður í búðirnar á kvöldin, þá eru margir hinir sömu komnir þangað, því þá er orðið of kalt að standa úti. Hvað gjöra þeir svo þar? Flækjast fyrir þeim sem koma til að versla. Hitti maður þar suma úr Verkamannafél. og spyrji, hvort þeir vilji vera með á fund.? „Ekki núna, segja þeir” og draga það með sér.

Svona er nú áhugji þeirra á félagsmálunum, þeir vilja heldur hinkra þarna þar til lokað er búðinni, heldur en koma á fund, til að láta álit sitt í ljósi um málin. Kvenfólkið okkar kemur á fundi svo framarlega sem því verður við komið fyrir annríki, og heldur þá náttúrlega á prjónunum sínum með sér, og höfum vér ekkert við það að athuga.

Nú vildi ég minna alla, jafnt karla sem konur á það, ekki einungis að sækja vel fundi vora heldur líka hitt, að láta afdráttarlaust álit sitt í ljósi um áhugamál vor, bæði til að æfa sig og láta hugann fylgjast með, líka til að ofþreyta ekki hina fáu er halda uppi ræðum, svo aðrir geti tekið við af þeim ef þeirra missir við. Hafið það hugfast að feimnin drepur alla framkvæmd!

Kvenhollur.