Skip to main content

Þann 3. desember 2020 voru liðin 95 ár frá því að Verkakvennafélagið Framtíðin var stofnað, en stofnfundurinn var haldinn þann dag árið 1925. Fram að því voru hafnfirskar verkakonur í Verkamannafélaginu Hlíf. Félagið starfaði allt til ársins 1999, þegar það sameinaðist Hlíf að nýju og úr varð Verkalýðsfélagið Hlíf.

Skömmu eftir að Verkamannafélagið Hlíf var stofnað snemma árs 1907, fóru konurnar í félaginu í verkfall. Það var fyrsta vinnustöðvun íslenskra verkakvenna sem sögur fara af. Tilefnið var að atvinnurekendur voru ekki tilbúnir að fallast á auglýsta kauptaxta Hlífar fyrir konur. Um þetta leyti voru konurnar í Hlíf um 70-80, sem var nálægt þriðjungur félagsmanna.

Aftur í verkfall

Konurnar endurtóku leikinn næst þegar kauptaxti var gefinn út, fimm árum síðar. Þá neituðu atvinnurekendur að fallast á að hækka laun kvenna úr 15 í 18 aura á tímann og jafnframt að greiða sérstakt nætur- og helgidagakaup. Þeir héldu því fram, að ekki væri hægt að ráða gamlar konur og ungar stúlkur upp á þau býti. Verkfall hófst 1. mars 1912 og stóð allt til 11. apríl, en þá létu atvinnurekendur undan og konurnar náðu flestum sínum kröfum fram. Oft er fjallað um þetta sem fyrsta verkfall íslenskra kvenna, en það er ekki alls kostar rétt, í ljósi þess að konur í Hlíf lögðu áður niður vinnu fimm árum áður eins og áður kemur fram.

Fjórar konur áttu sæti í stjórn Hlífar frá 1913 (ekki er vitað um árin á undan): Sesselja Magnúsdóttir 1913-1914, Lára Jörundardóttir 1920-1921, Jóhanna Eiríksdóttir 1920-1921 og Helga Þórðardóttir 1921-1922. Um tíma var rætt um að deildaskipta félaginu og að konur mynduðu þá sérstaka deild, en af því varð ekki. Þar kom aftur á móti, að konur töldu hagsmunum sínum betur fyrir komið ef þær væru í sérstöku félagi. Þetta var gert í góðu samkomulagi við stjórn Hlífar.

Kröfðust launajafnréttis

Stofnfundur Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar var haldinn 3. desember 1925 í húsi Hjálpræðishersins við Austurgötu 24 (nú Austurgata 26) í Hafnarfirði. Við félagsstofnunina nutu konurnar liðsinnis kvenna úr Framsókn í Reykjavík. Á fundinum munu hafa verið ríflega 70 konur, en 83 eru skráðar stofnfélagar. Fyrsti formaður félagsins var kjörin Sigrún Baldvinsdóttir, en hún var systir Jóns Baldvinssonar, forseta ASÍ. Aðrar konur í fyrstu stjórn voru Guðlaug Narfadóttir Bachmann, Guðfinna Ólafsdóttir, Jónína Sigurðardóttir og Sigurrós Sveinsdóttir, sem var varaformaður.

Í fyrstu lögum félagsins, sem voru samþykkt á fyrsta félagsfundi nokkrum dögum síðar, kom fram að tilgangurinn væri að styðja og efla hag félagskvenna og menningu eins og kostur væri á. Meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því að verkalýðurinn tæki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.

Félagið setti strax fram þá kröfu að konur fengju sama kaup og karlar fyrir sömu vinnu. Fyrsta áfanganum að launajafnrétti var þó ekki náð fyrr en árið 1954. Í kjarasamningi sem þá var gerður, kom fram að greiða skyldi karlmannskaup fyrir fiskþvott, fyrir að kasta fiski upp á bíla og hengja fisk á trönur og ári síðar kom inn ákvæði um karlmannskaup við vinnu við alla blautskreið.

Dagheimilið á Hörðuvöllum

Framtíðin lét til sín taka á mörgum sviðum í bæjarlífinu, til viðbótar við baráttuna fyrir bættum kjörum. Þar má nefna reglulegar skemmtanir, bæjarpólitíkina og fleira. Eitt merkilegasta framlag félagsins hlýtur þó að teljast stofnun og rekstur dagheimilisins á Hörðuvöllum. Málinu var fyrst hreyft á félagsfundi árið 1932 og síðan aftur ári síðar en þá samþykkti félagsfundur að fela stjórninni að stofna dagheimili fyrir börn. Heimilið tók til starfa þá um vorið. Það var fyrst til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu og starfaði fyrsta sumarið frá 19. maí til 15. ágúst. Lengst af voru börnin 12, en flest 15. Þau komu á morgnana, á bilinu frá hálfátta til níu og fóru heim um sexleytið. Félagið fékk síðan lóð á Hörðuvöllum og var smíði dagheimilis hafin í mars 1935 og starfsemi hófst í nýja húsinu 2. maí 1935.

Dagheimilið starfaði með líku sniði til haustsins 1939, en starfsemin lá niðri á stríðsárunum. Það var síðan opnað að nýju vorið 1945 og var þá opið í þrjá mánuði. Haustið 1948 hófst síðan heilsársstarfsemi á Hörðuvöllum. Vorið 1956 var hafist handa við stækkun dagheimilisins. Viðbyggingin var tekin í notkun 18. júlí 1957. Á engan er hallað, þótt því sé haldið fram að Sigríður Erlendsdóttir hafi verið helsti hvatamaður að stofnun heimilisins.

Undir lok 20. aldar varð allmikil bylgja sameininga verkalýðsfélaga um land allt, sem meðal annars leiddi til viðræðna um slíkt í Hafnarfirði. Viðræðurnar urðu til þess að Verkamannafélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Framtíðin sameinuðust í Verkalýðsfélaginu Hlíf. Síðasti aðalfundur Framtíðarinnar var haldinn 6. apríl 1999 og fyrsti aðalfundur sameinaðs félags var síðan haldinn 28. apríl 1999. Lauk þar með sögu sérstaks verkakvennafélags í bænum.